145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

álitamál vegna raflínulagna að Bakka.

[10:39]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Nú í morgun var afgreitt út úr atvinnuveganefnd mál sem lýtur að kærumálum vegna framkvæmdaleyfa sem veitt hafa verið fyrir Kröflulínu og Þeistareykjalínu, þ.e. frumvarp um heimild til handa Landsneti hf. til að reisa og reka þessar línur. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra vegna þess að það hefur töluvert verið um þetta mál fjallað í nefndinni og ég sem fulltrúi í umhverfisnefnd hef átt aðkomu að þeim fundum þar sem fram hafa komið gríðarlega þungar áhyggjur af þessu þingmáli. Þær áhyggjur lúta að innlendum og erlendum skuldbindingum, m.a. árekstri við Árósasamninginn og EES-reglur, við mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð, mögulega að frumvarpið samræmist ekki stjórnarskrá og þá er ég að tala um 2. gr., 70. gr., 60. gr. og 78. gr.

Á fundi nefndarinnar í gær kom fram hjá fulltrúa forsætisráðuneytisins að hann teldi það ekki vera hlutverk forsætisráðuneytisins að rýna frumvarpið sérstaklega með hliðsjón af þessum skuldbindingum og samræmi við stjórnarskrá heldur væri það á ábyrgð fagráðuneytisins að skila frumvarpinu til þingsins með fullnægjandi hætti að því er varðar þau mál. Nú er það svo að menn hafa reist bæði efasemdir og vangaveltur um þessi atriði hjá nefndinni, bæði nafntogaðir innlendir lögfræðingar en ekki síður núna síðast hollenskur lagaprófessor í gær.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að iðnaðarráðuneytið hafi skilað fullnægjandi mati á því hvort þetta frumvarp standist bæði þessa alþjóðlegu sáttmála og alþjóðlegu skuldbindingar en ekki síður stjórnarskrá Íslands.