145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

ræða ráðherra á allsherjarþingi SÞ.

[10:48]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir prýðisgóða yfirferð á ræðu minni hjá allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna síðastliðinn laugardag. Hún fór mjög vel yfir þá áherslupunkta sem ég var með í þeirri ræðu. Hún spyr hvernig við eigum að auka virðingu og bæta stjórnarfar og annað slíkt og ég held að þetta séu mjög góðar spurningar og gott að þær komi fram á Alþingi. Ég held til að mynda að góðar umræður hér og svona fyrirspurnatími sé af hinu góða og geti hjálpað okkur í þeim efnum. Auk þess spyr hv. þingmaður hvað mér finnist um gjörðir fyrirrennara míns er hann fór til Brussel og dró aðildarumsóknina til baka. Ég held að öllum eigi að vera ljóst að hvorugur stjórnarflokkanna hafði í hyggju að halda þeim aðildarviðræðum áfram. Sjálfri finnst mér mjög mikilvægt að ef einhverju slíku verður haldið áfram þá fari hreinlega fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort við ætlum að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég held að það sé mjög brýnt.

Það sem við eigum að gera líka, og ég hef sterka sannfæringu fyrir því — við eigum ekki að vera hrædd við að setja fleiri mál í þjóðaratkvæðagreiðslu.