145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

ræða ráðherra á allsherjarþingi SÞ.

[10:50]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það hefði verið ákaflega gagnlegt ef þeir sem voru í framboði fyrir síðustu kosningar fyrir Framsóknarflokkinn hefðu hreinlega látið kjósendur vita af því að það stæði ekki til að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu á þessu kjörtímabili og þeir sem mundu verða fulltrúar fyrir þennan flokk á þingi sæju ekkert athugavert við það að hunsa þingsályktun sem hefði verið samþykkt á Alþingi. Allir alþjóðasáttmálar okkar, allar alþjóðaskuldbindingar okkar eru í formi þingsályktana þannig að með þessum gjörningi var verið að grafa undan réttarríkinu.

Ég spyr hæstv. ráðherrann í fullri einlægni hvort henni finnst ekki vegið að grundvallarstoðum réttarríkisins þegar tekinn er einn gjörningur sem á lagaformlega að fara í gegnum Alþingi en ekki vera duttlungum ráðherra háður, rétt eins og þegar ráðherrar ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar ákváðu að taka þátt í stríði (Forseti hringir.) án þess að eiga samráð við þingið.