145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[11:18]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er fagnaðarefni að samgönguáætlun skuli loksins vera komin á dagskrá. Það er búið að gera margar atlögur að því að koma henni í gegn. Það hefur valdið vonbrigðum að það hafi ekki tekist fyrr og við höfum því ekki haft í gildi samgönguáætlun undanfarin tvö ár.

Það er fyrst frá því að segja að við í minni hlutanum styðjum allar breytingartillögur meiri hlutans sem lagðar eru til í nefndaráliti hans. Það má kannski segja að vegna þess hversu sveltur málaflokkurinn hefur verið á undanförnum árum, sem er farið að hafa verulega neikvæð áhrif á innviði í landinu, er ekki annað hægt en að samþykkja allar tillögur sem menn þó leggja fram í samgöngumálum. Það hefur verið staðið svo illa að málum á kjörtímabilinu að við horfum upp á sögulegt lágmark í framlögum til samgöngumála á sama tíma og ferðaþjónustan er að vaxa og álagið á vegunum að aukast.

Eins og fyrr segir lýsir minni hluti nefndarinnar yfir stuðningi við breytingartillögur meiri hlutans en vill þó koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum ásamt því að leggja til frekari breytingar á samgönguáætlun.

Minni hlutinn gagnrýnir harðlega lág framlög til samgöngumála á þessu kjörtímabili og þann drátt sem orðið hefur á afgreiðslu samgönguáætlunar. Minni hlutinn telur ört vaxandi álag á vegakerfi landsins, m.a. vegna hraðrar aukningar á fjölda ferðamanna sem koma til landsins, kalla á önnur og meiri viðbrögð stjórnvalda en lögð eru til í þeirri samgönguáætlun sem hér er til umfjöllunar.

Framlög til samgöngumála sem hlutfall af vergri landsframleiðslu á árunum 2006–2015 má sjá á mynd í minnihlutaáliti nefndarinnar sem sýnir svo ekki verður um villst hversu sveltur þessi málaflokkur hefur verið á undanförnum árum. Í fyrirspurn sem ég átti við hæstv. innanríkisráðherra í fyrravetur svaraði hún því einfaldlega heiðarlega til að það hefði verið tekin pólitísk ákvörðun af ríkisstjórninni um að forgangsraða með öðrum hætti. Með öðrum orðum: Það var pólitísk ákvörðun tekin um að leggja jafn lítið fé í samgöngumálin og raun ber vitni. En það hefur áhrif. Það hefur gríðarleg áhrif sem ég mun fara yfir þegar lengra er komið í okkar áliti.

Framlög til samgöngumála námu ríflega 2,5% af vergri landsframleiðslu þegar best lét, árið 2008. Þá var ráðist í mikilvægar fjárfestingar í innviðum landsins. En síðan þá hefur hlutfallið haldist í sögulegu lágmarki, eða í kringum 1,1–1,3%. Árið 2009 fór hlutfallið niður í 2,3%, árið 2010 í 1,8%. 2011 var það í 1,3% og sama með 2012 og 2013. Árið 2014 þegar heldur betur var farið að birta til í ríkisfjármálunum datt hlutfallið niður í 1,1% af vergri landsframleiðslu. Svo rétt fór það að stíga á árinu 2015. Þessi málaflokkur hefur sannarlega verið sveltur og hafa framlög til samgöngumála auðsjáanlega ekki fylgt almennum uppgangi í efnahagslífinu á undanförnum árum og enn síður stórauknum ferðamannastraumi.

Í töflu í nefndarálitinu á bls. 2 má sjá tölur um fjölda ferðamanna sem hafa komið til landsins frá árinu 2006. Á sama tíma og framlög til samgöngumála hafa lækkað jafn mikið og raun ber vitni hefur fjölgun ferðamanna mælst í tveggja stafa prósentutölu um allnokkurt skeið. Talið er að fjöldi ferðamanna á þessu ári fari upp í 1,6–1,7 milljónir. Það þýðir á milli áranna 2015 og 2016 var tæp 33% aukning á komu ferðamanna. Árið þar á undan var hún 29%, árið þar á undan 23%. Fyrri árin 20%, 19%, 15,8%. Menn hafa samt ekki séð ástæðu til þess að hlúa að mikilvægum innviðum eins og samgöngukerfum sem er undirstaða þess að ná markmiðum um það hvernig við ætlum að dreifa ferðamönnum betur um landið.

Ég ætla að nefna í þessu samhengi að það er mikið fagnaðarefni, eftir nudd ár eftir ár, að meiri hlutinn leggur til, studdur af okkur í minni hlutanum, að verkefni eins og Dettifossvegur verði loksins klárað. Það er búið að vera hálfvandræðalegt hvernig smáslumpar hafa farið í það verkefni og er algerlega á skjön við stefnumörkunina í ferðamálum, sem hefur snúist um að dreifa ferðamönnum betur um landið. Ef það á að takast þarf að bæta aðgengi að helstu ferðamannastöðum og búa til möguleika á að byggja upp t.d. nýjan gullinn hring eða demantshring eða hvað við viljum kalla það annars staðar en eingöngu á Suðurlandinu. Sama má segja um fleiri landsvæði svo ég taki bara þetta eina dæmi. Þetta er fagnaðarefni og við öll í nefndinni stöndum að þessu og höfum alla tíð verið sammála um að þetta sé dæmi um verkefni sem skiptir gríðarlega miklu máli ef við horfum til atvinnuþróunar. Það eru margar kríteríur sem við þurfum að líta til þegar við vinnum með samgöngumálin.

Ég veit að það hefur verið vilji í nefndinni hjá meiri hluta og minni hluta til að gera meira í samgöngumálum. Okkur hefur verið þessi staða ljós. Hins vegar hefur fjárveitingavaldið verið heldur tregt til að verða við þeim óskum sem frá nefndinni hafa komið. Við í minni hlutanum gagnrýnum ríkisstjórnina harðlega fyrir að hafa vanrækt samgöngukerfi landsins á tíma þessa mikla uppgangs í ferðaþjónustunni með fordæmalausri fjölgun ferðamanna og auknu álagi á alla innviði landsins. Víðast hvar er ástand vega óviðunandi vegna skorts á viðhaldi. Á fundum nefndarinnar bentu fulltrúar Vegagerðarinnar á að veita þyrfti 8–9 milljarða kr. árlega í viðhald vega til þess eins að halda í horfinu en að 11 milljarða kr. þyrfti árlega til að bæta mætti ástand vega og öryggi samhliða bara þessu almenna viðhaldi. Samkvæmt tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun eins og hún liggur fyrir stendur þessi tala í 7 milljörðum. Þannig kom hún frá ráðherranum sjálfum. Með öðrum orðum: Tillaga ráðherrans var sú að halda ekki við fjárfestingum sem þegar hefur verið ráðist í. Með 7 milljörðum sjáum við áfram vegakerfið grotna niður. Það er ekki á færi Vegagerðarinnar að halda vegakerfinu við og þeim fjárfestingum sem ráðist hefur verið í á undanförnum árum fyrir 7 milljarða.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til með okkar stuðningi að þessi tala fari í 8 milljarða og er það vel. En eins og fram kom í mínu máli hér á undan er það samt ekki nóg. Það þarf 8–9 milljarða. Maður getur alltaf gert ráð fyrir að það sé nær hærri upphæðinni sem raunverulega þarf. Síðan er ekki verið að bæta neinu við til þess að menn geti uppfært vegakerfið í samræmi við aukið álag. Til þess þyrfti 11 milljarða. Við í minni hlutanum teljum efni standa til við þessar aðstæður að hækka fjárhæðina enn frekar og leggjum því til í okkar breytingartillögum að fjárhæðin verði hækkuð í 9,5 milljarða þannig að við náum a.m.k. að viðhalda vegakerfinu og menn geti lagt af stað í þann leiðangur að uppfæra það og færa nær þeim aðstæðum sem við vildum sjá. Við leggjum hér fram mjög ábyrgar breytingar, breytingar sem fela ekki í sér það mikinn kostnaðarauka að við ráðum ekki við þær árlega á árunum 2017–2018. Við vonumst til þess að þingmenn hvar í flokki sem þeir standa taki undir þessa tillögu með okkur svo að Vegagerðin geti farið að horfa til framtíðar hvað varðar öryggi og úrbætur í vegakerfinu. Þó að þetta sé eingöngu brot af því sem þeir þurfa þá mundum við alla vega leggja af stað í þann leiðangur. Þannig mætti hefja uppbyggingu vegakerfisins að nýju eftir tímabil sveltis og vanrækslu.

Minni hlutinn í nefndinni telur einnig mikilvægt að við áætlanagerð í samgöngumálum séu þekking og álit sérfræðinga á sviðinu virt að verðleikum og reynt að forðast tilviljunarkenndar ákvarðanir. Settar verði upp skýrar vinnureglur þar sem tekið verði tillit til breytna eins og álags og öryggis og byggða- og atvinnuþróunarsjónarmiða þegar metið er hvaða framkvæmdir eigi að ráðast í og hvernig þær eigi að raðast.

Þetta er gert að miklu leyti til hjá Vegagerðinni og hjá framkvæmdarvaldinu en það fer minna fyrir slíkum listum eða greiningum þegar við vinnum með samgönguáætlun í þinginu. Þá er ég ekkert endilega að álasa bara þessu þingi heldur getum við líka horft aftur í tímann með þetta. Þá hafa kjördæmaáherslur frekar verið ofan á en að menn leggi kalt mat á þörfina út frá þeim sjónarmiðum sem ég nefndi.

Einnig teljum við í minni hlutanum að samgönguáætlun og áhrif einstakra framkvæmda skuli metin út frá loftslagsmarkmiðum enda mikil tækifæri í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum. Þá telur minni hlutinn tilefni til að auka hlut landshlutasamtaka við forgangsröðun framkvæmda.

Mig langar að nefna eitt dæmi sem nefndin var algerlega sammála um að þyrfti að ráðast í, það var breikkun á Reykjanesbrautinni frá Fitjum að Leifsstöð. Það er ekki nokkur vafi að um það eru menn sammála. Meiri hlutinn leggur til tillögu sem við styðjum heils hugar, skammtímalausn sem felst í að setja upp tvö hringtorg sem munu skipta máli til að tryggja og bæta öryggi. En þegar tæknikratinn í manni hugsar um þessi mál þá hefði verið betra ef við hefðum lista í nefndinni yfir þau svæði og þá vegarkafla þar sem öryggi er ábótavant þannig að við gætum lagt hlutlægt mat á hvar ætti að ráðast í framkvæmdir. Mál þurfa ekki að koma upp með svona ad hoc-hætti eins og t.d. þetta verkefni varðandi Reykjanesbrautina. Það finnst mér vera bagalegt. Það er auðvelt að koma slíkri greiningu í verk og ég kalla eftir að þetta verði gert í auknum mæli og við reynum að vinna frekar með þeim hætti.

Minni hlutinn telur einnig að hraða beri vinnu við að minnka hlut jarðefnaeldsneytis í samgöngum og auka notkun endurnýjanlegra orkugjafa. Þá vill minni hlutinn leggja áherslu á fjölbreytilega samgöngumáta og telur mikilvægt að stuðlað verði að eflingu almenningssamgangna og hlúð betur að innviðum fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Minni hlutinn kallar eftir því að framvegis verði settar fram sérstakar hjólreiðaáætlanir og áætlanir um eflingu almenningssamgangna sem hluta samgönguáætlana.

Þarna má nefna að meiri hlutinn leggur til að settir verði fjármunir í hjólreiðastíga fyrir norðan sem við styðjum heils hugar. Við vitum að hjólreiðanotkun er að aukast mjög mikið. Við eigum þess vegna að horfa til þess um land allt með skipulögðum hætti hvernig við getum gert ráð fyrir hjólandi umferð.

Minni hlutinn telur líka mikilvægt að gott samráð verði haft við gerð langtímaáætlunar í samgöngum og sjónarmið um öryggi, álag og atvinnu- og byggðaþróun látin ráð för við forgangsröðun verkefna. Sem dæmi um verkefni sem hafa þarf í huga við gerð langtímaáætlunar má nefna að lokið verði við tvöföldun Reykjanesbrautar. Með auknum ferðamannastraumi hefur álagið á brautina aukist hratt á undanförnum árum og ljóst er að ráðast þarf í framkvæmdir til að auka öryggi, samanber kaflann frá Fitjum og að flugstöðinni sem ég nefndi áðan. Þar styður minni hlutinn að ráðist verði hratt í úrbætur með hringtorgum en leggur þunga áherslu á að það sé eingöngu lausn til bráðabirgða og að ráðist verði sem fyrst í tvöföldun vegarins með tilheyrandi framkvæmdum á gatnamótum. Þá leggur minni hlutinn áherslu á að breikkun Suðurlandsvegar milli Hveragerðis og Selfoss verði í langtímaáætlun enda álag á þeim hluta mikið, jafnframt að brúin yfir Jökulsá verði sett á áætlun ásamt Laxárdalsheiði yfir í Hrútafjörð, Brekknaheiði og vegum um Langanesströnd svo dæmi séu tekin.

Minni hlutinn leggur jafnframt til að ráðist verði í athuganir fyrir gerð Álftafjarðarganga, rannsókn verði gerð á algerum aðskilnaði akstursstefna milli Reykjavíkur og Akureyrar, farið verði fyrir alvöru í fjölgun ferðamannaleiða og langtímaáætlun verði gerð um hjólreiðastíga og almenningssamgöngur um land allt. Framangreind verkefni eru ekki tæmandi listi heldur dæmi um verkefni sem tímabært er að meta og setja inn á langtímaáætlun. Þörfin fyrir skýra sýn og mat á verkefnum er orðin brýn á öllum landsvæðum og leggur minni hlutinn þunga áherslu á fyrirsjáanleika í forgangsröðun út frá hlutlægum breytum.

Sem fyrr segir telur minni hlutinn að verja hefði þurft enn meiri fjármunum til viðhalds vega en breytingartillögur meiri hlutans kveða á um. Telur minni hlutinn að brýnt sé að bæta nú þegar 2,5 milljörðum kr. við það fjármagn sem veitt er til þessa liðar í samgönguáætlun árlega árin 2017 og 2018.

Í tillögunum okkar stendur að þetta sé 1,5 milljarðar en það er vegna þess að okkar tillögur eru í raun og veru viðbót við breytingartillögur meiri hlutans sem við styðjum. Við leggjum til breytingartillögur við þær og því er þetta ósamræmi á milli talna. Þetta er tæknileg útfærsla. Þegar menn lesa breytingartillöguskjal okkar eiga þeir að hugsa það sem viðbót ofan á þegar samþykktar tillögur meiri hlutans.

Þá leggjum við líka til að 1 milljarður kr. verði settur inn til viðbótar til að bæta öryggi á vegum, m.a. með fækkun einbreiðra brúa, að auknu fjármagni verði varið til eflingar almenningssamgangna og að eftirfarandi verkefni færist inn á samgönguáætlun þá sem nú er til afgreiðslu auk þeirra sem fyrr hafa verið nefnd. Þetta eru vegaframkvæmdir við Látrabjarg og vegaframkvæmdir í Árneshreppi sem eru orðnar löngu tímabærar, malbikun malarvegar á Skógarströnd, endurbætur vega í Dölum, átak í héraðs- og tengivegum um allt land og að vegur yfir Öxi fylgi strax á eftir framkvæmdum við Berufjarðarbotn.

Mig langar að nefna stuttlega átakið um fækkun einbreiðra brúa. Meiri hluti nefndarinnar hefur gert ágætistillögu um viðbætur en við teljum að gera þurfi mun meira og leggjum til að 500 milljónir á hvoru árinu fyrir sig verði settar til viðbótar við tillögur meiri hlutans og það sem fyrir er í samgönguáætlun af þeirri einföldu ástæðu að þegar Vegagerðin er spurð að því hvað ein framkvæmd kosti um það bil, þ.e. breikkun á einni brú, getur það verið á bilinu 200–300 milljónir. 500 milljónir á ári til að breikka brýr eru tvær brýr. Tvö stykki. Þó að þetta hljómi sem miklir fjármunir til breikkunar brúa er það ekki svo í raun. Það eru fáar brýr sem eru að baki hálfum milljarði. Þess vegna leggjum við til að við bætum við a.m.k. tveimur á ári til þess að auka öryggi á vegum vegna aukinnar umferðar.

Árið 2013 voru settar á fjárlög 45 millj. kr. sem framlag ríkisins til gerðar göngubrúar yfir Markarfljót. Aðrir aðilar hafa að auki safnað framlögum til verksins. Samkvæmt upplýsingum nefndarinnar mun fyrirliggjandi fjármagn til þessa verks nú vera um 84 millj. kr. og er talið að um 130 millj. kr. vanti upp á svo að ráðast megi í framkvæmdir og ljúka þeim. Minni hlutinn hvetur til þess að fé verði veitt til þess að ljúka þessu verki í næstu fjárlögum.

Með auknu samstarfi sveitarfélaga að því er varðar menntun, menningu, atvinnu og þjónustu eykst þörfin fyrir öfluga innanhéraðsvegi og að horft sé til jarðganga í meiri mæli þegar sífellt er algengara úti um land að fólk þurfi að aka langan veg á degi hverjum. Í ljósi þessa er mikilvægt að unnin verði forgangsröðun í gangagerð í samstarfi við sveitarfélögin sem taki mið af byggðastefnu, atvinnuþróun og öryggissjónarmiðum. Í þessu sambandi vill minni hlutinn leggja áherslu á að haldið verði áfram við undirbúning og framkvæmdir Dýrafjarðarganga og Seyðisfjarðarganga svo dæmi séu tekin.

Minni hlutinn vill hvetja til þess að þegar stórframkvæmdir í samgöngum eru metnar og undirbúnar séu áhrif þeirra á stöðu kynjanna metin. Það vill nefnilega stundum verða þannig að þegar verið er að meta áhrif samgönguframkvæmda sé kynjabreytan ekki tekin inn. Það hafa komið fram núna áhugaverðar vísbendingar úr rannsóknum sem t.d. er verið að gera í Háskólanum á Akureyri um áhrif Héðinsfjarðarganga á stöðu kynjanna sem eru afar jákvæðar fyrir stöðu kvenna í samfélögunum þar í kring. Það er áhugavert sjónarmið sem ég tel að við eigum að horfa meira til. Við tölum um það í þinginu aftur og aftur að til þess að halda byggð í landinu þurfi að tryggja og styrkja betur aðbúnað og tækifæri kvenna til að starfa og njóta lífs á landsbyggðinni en þetta er tenging sem er kannski ekki oft rædd. Þess vegna sló hún mig og mér fannst hún áhugaverð. Ég held að við eigum að skoða hana aðeins betur.

Mér finnst sjálfri, svo ég bæti því inn, að umræðan um gangagerð úti á landi fari allt of oft í einhverjar skotgrafir, að það sé verið að dekstra einhvern lítinn hóp af fólki sem býr úti á landi. Ég get ekki tekið undir þá umræðu. Ég trúi því ekki að við viljum í alvöru talað að hér verði byggt upp eitthvert borgríki og það verði síðan bara einhverjar örfáar hetjur sem haldi það út að búa úti um land. Þannig viljum við ekki hafa það. Ef við ætlum að breyta þessu, dreifa betur byggðinni og styrkja byggðarlög um landið þá verðum við að horfa til samgöngugerðar. Það má gera alls konar skemmtileg prógrömm í byggðamálum en þegar öllu er á botninn hvolft snýst þetta um hversu hratt og örugglega maður kemst til heilsugæslu, í menningu og afþreyingu og jafnvel til starfa. Að upptökusvæði manns til að njóta lífs og starfa verði stærra. Það gerist með betri samgöngum. Ég hef þá trú að þegar kemur að byggðaáætlunum og byggðaþróun eigi samgöngumálin að skipa miklu stærri sess en verið hefur. Við eigum að hætta að tala um gangagerð eins og það sé eitthvert dekstur við litla hópa úti á landi. Þetta snýst um hvernig samfélagið Ísland þróast, hvernig landið okkar allt þróast og hvernig við viljum sjá það byggjast upp.

Í álitinu minnir minni hlutinn jafnframt á skarðan hlut flugvalla í samgönguáætlun og kallar eftir skýrri stefnumótun stjórnvalda á því sviði.

Auk framangreinds vill minni hlutinn hvetja til þess að samstarf verði haft við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um þróun og fjármögnun svokallaðrar borgarlínu, sem er nýtt léttlesta- eða hraðvagnakerfi, á grundvelli svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins. Slíkt kerfi mundi stórefla almenningssamgöngur og auðvelda þéttingu byggðar um allt höfuðborgarsvæðið og þar með yrði unnið í þágu loftslagsmarkmiða og dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum. Í þessu samhengi minnir minni hlutinn á þingsályktunartillögu um athugun á hagkvæmni lestarsamgangna sem lögð var fram hér af hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur og var samþykkt var af Alþingi á 144. löggjafarþingi, þar sem Alþingi ályktaði að fela innanríkisráðherra að láta kanna hagkvæmni lestarsamgangna milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur annars vegar og léttlestakerfis innan höfuðborgarsvæðisins hins vegar. Þeirri vinnu átti samkvæmt samþykkt Alþingis að ljúka um mitt ár 2016 og er mikilvægt að henni verði lokið sem fyrst.

Aðeins um þetta til viðbótar. Það er mjög ánægjulegt að sjá hversu samstiga öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru orðin hvað almenningssamgöngur og þessi mál varðar og betri tengingu höfuðborgarsvæðisins innbyrðis. Það er möguleiki að bæta úr þessu fyrir okkur sem sitjum í bílnum á morgnana, oft dálítið lengur en við vildum og erum að reyna að koma okkur úr Hafnarfirði eða Garðabæ eða af Suðurnesjunum inn í borgina til starfa. Það þarf að gera eitthvað í þessu. Okkur fækkar ekkert, okkur bara fjölgar. Þess vegna þurfa menn að horfa á það skipulag sem stjórnvöld í sveitarfélögunum í kringum höfuðborgarsvæðið og á því eru að vinna og gaumgæfa það. Þau hafa stúderað þetta, hafa hugmyndir um hvernig megi létta á umferðinni í borginni með bættum almenningssamgöngum og ýmsu öðru. Mér finnst við þurfa að fara að vinna betur með þeim í þessu. Þar er engin flokkapólitík í gangi. Þar eru bæjarstjórnarmeirihlutar sem eru samansettir ólíkt eftir því hvaða sveitarfélögum menn eru í en þau ná samt saman um þessar áherslur. Það er vegna þess að þetta er ekki flokkpólitískt, það er bara praktískt úrlausnarefni hvernig á að koma fólki betur á milli staða og auka þar með lífsgæði fólks.

Að þessu sögðu er minni hlutinn mjög svo fylgjandi samþykkt samgönguáætlunar með þeim breytingum sem meiri hluti og minni hluti leggja til í sérstökum þingskjölum. Við leggjum til tæplega 3 milljarða viðbætur árið 2017 og rétt rúmlega 3 milljarða viðbætur 2018. Við teljum það hóflegar viðbætur og vonumst til þess að meiri hluti þingsins sé tilbúinn að stíga það skref að koma með okkur í þær viðbætur, þótt ekki væri nema — og nú ætla ég að biðla til þingmanna hér, sem reyndar eru ekki margir á svæðinu en ég vona að séu á skrifstofum sínum að hlusta — að samþykkja a.m.k. liðinn þar sem við leggjum til aukið fé til viðhalds, 1,5 milljarða. Við getum það alveg og þannig tryggjum við að við verjum fyrri fjárfestingar og við leggjum af stað með uppfærslu á vegakerfinu.