145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[11:48]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Við erum búin að vera öskuill yfir því í nefndinni að menn hafi ekki getað samþykkt samgönguáætlun fyrr á þessu kjörtímabili. Eins og ég kom inn á í ræðu minni þá svaraði innanríkisráðherra fyrirspurn minni þannig í fyrra að menn væru bara að forgangsraða öðruvísi og hefðu tekið pólitíska ákvörðun um að láta vegakerfið bíða. Það er heiðarlegt svar, og allt í lagi með það. En það breytir samt ekki því að í ár koma eingöngu 6 milljarðar til viðhalds vega þegar menn telja sig þurfa 8–9 milljarða bara til að halda í horfinu þeim framkvæmdum sem þegar hefur verið ráðist í. Það gengur ekki upp.

Ég vil nálgast málið jákvætt og segja: Ókei, ef það þurfti kosningar til þess að taka tappann úr og koma peningum inn í kerfið, þá það. Ég veit að nefndarmenn í öllum flokkum hafa verið að þrýsta á að fá meiri fjármuni. Við skulum bara gefa öllum það sem þeir eiga, en þetta hefur snúist um að framkvæmdarvaldið hefur ekki verið tilbúið í þá vegferð. Þá fögnum við því bara og gleðjumst. Ég hef sagt að hverjum tíkalli sem kemur til viðbótar inn í þennan málaflokk verði tekið fagnandi.

Varðandi innanlandsflugið þá er þetta hugsað til þess að reyna að mæta kostnaði við það. Ætlast er til að fundin verði besta leiðin til að reyna að dreifa þessum fjármunum og það hefur verið pólitískur vilji þvert á flokka að reyna að mæta þeim sérstaklega sem búa úti á landi og þurfa að sækja þjónustu á höfuðborgarsvæðið, hvort sem er heilbrigðisþjónusta eða annað slíkt — og oftast er það það sem menn þurfa að sækja til Reykjavíkur — (Forseti hringir.) þá geti þeir fengið einhvern stuðning til þess, vegna þess að miðaverðið er orðið ansi hátt. (Forseti hringir.) Ég held að flestir flokkar séu sammála (Forseti hringir.) um að reyna að finna einhverjar leiðir til að mæta þessum kostnaði.