145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[11:53]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins aftur varðandi farmiðagjaldið og ferðakostnaðinn fyrir þá sem búa úti á landi. Það er alveg rétt, þessi skýrsla var ekki ítarlega rædd, en ýmsar leiðir voru ræddar. Tekin var ákvörðun um að setja í þetta fjármuni og láta síðan fagmennina sjá um að finna bestu leiðina til að koma þeim út. Það eru möguleikar, eins og við þekkjum, og það er ekki neitt í EES-regluverkinu sem hamlar gegn því. T.d. greiða íbúar á eyjum við Skotland lægra ferjugjald en aðrir. Það má horfa á eitthvað slíkt módel, sérstaklega ef menn þurfa að fara til Reykjavíkur til að fara til læknis. Ég efast ekki um að menn finna þessu fé einhvern góðan farveg.

Þá langar mig að nefna almenningssamgöngurnar. Ég sammála hv. þingmanni. Þess vegna leggjum við til að settar verði 400 millj. kr. árið 2017 og aftur 2018 til þess að styrkja almenningssamgöngur. Nánast hvert einasta sveitarfélag og landshlutasamtök sem sendu okkur umsagnir óskuðu eftir því að ríkisvaldið kæmi með sterkari hætti að almenningssamgöngunum, og nefndu þar m.a. olíugjaldið. Ég held að við eigum að svara því kalli ef þetta á að verða sjálfbært og svo menn geti rekið vegakerfið almennilega og séu ekki alltaf að koma í betliferð ár eftir ár vegna þess að það ber sig ekki. Við vitum það alveg að á meðan menn eru að byggja eitthvað upp, eins og nýtt almenningssamgöngukerfi, eins og gert hefur verið (Forseti hringir.) á undanförnum árum, getur það byrjað þannig að menn þurfi að borga með því. Vonandi breytist það þegar fram líða stundir. Þangað til eigum við að gera það með glöðu geði.