145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[12:16]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi samgönguáætlun til ársins 2018 er aumasta samgönguáætlun sem lögð hefur verið fram, að minnsta kosti síðan ég settist á þing árið 2009. Hún er ekki aðeins seint fram komin, kemur fram þegar tvö ár eru liðin af þeim fjórum sem hún á að taka til, heldur fer því svo víðs fjarri að verið sé að setja næga fjármuni inn í samgöngukerfið. Eins og kom fram í ræðu hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur, framsögumanns nefndarálits minni hlutans í umhverfis- og samgöngunefnd, er um að ræða sögulegt lágmark í framlögum til samgöngumála.

Vegagerðin hefur áætlað að fram til ársins 2018 þurfi að verja um 400 milljörðum kr. til samgöngumála ef samgöngur eiga að vera sambærilegar við það sem gerist í nágrannalöndum okkar. En miðað við áætlanir ríkisstjórnarinnar og ríkisfjármálaáætlun lætur nærri að fjármagnið sem á að fara til samgöngumála á næstu tólf árum sé um fjórðungur þess sem þyrfti að vera. Þessi samgönguáætlun nær aðeins til tveggja ára. En hér er ekki einu sinni sett inn nægilegt fjármagn til að viðhalda vegum. Vita þá allir sem vilja sjá hvernig ástandið er á vegum landsins og hversu ört vaxandi þungi umferðar er farinn að slíta þeim vegum, ekki síst eftir tilkomu hinnar öru ferðamannaaukningar sem við sjáum hér ár frá ári.

Meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar hefur vegna þess hve naumt er skorið gert fjölmargar breytingartillögur við samgönguáætlunina. Það er athyglisvert, 22 breytingartillögur við vegáætlun þess sama stjórnarmeirihluta og meiri hluti nefndarinnar tilheyrir. Níu tillögur um hafnargerð og fimm tillögur varðandi flugsamgöngur, þ.e. tillögur fyrir samtals um 11 milljarða kr. á næstu tveimur árum. Það er síst of í lagt að samþykkja allar þær tillögur og hefur verið lagt til af minni hluta nefndarinnar að það verði gert hér í þinginu, enda er þörfin brýn. En minni hluti umhverfis- og samgöngunefndar hefur, eins og kom fram í máli framsögumanns nefndarálits fyrr í umræðunni, þá væntanlega vegna þessa líka, lagt til allmargar viðbætur að auki, til viðbótar við það sem meiri hlutinn leggur til, sem sannarlega væri óskandi að yrðu samþykktar. Það væri mannsbragur að því á Alþingi að ómerkja þetta metnaðarlausa plagg og samþykkja allar þær viðbætur sem lagðar eru til bæði frá stjórnarmeirihluta og minni hluta.

400 milljarða afgangur er á ríkissjóði, svo dæmi sé tekið, og margir vannýttir tekjustofnar til framtíðar, m.a. ótekin auðlindagjöld. Fjármuni ætti því ekki að skorta í miðju góðærinu, þó ekki væri til annars en að viðhalda vegum.

Samgöngukerfi okkar Íslendinga, ekki bara vegirnir heldur samgöngukerfið í heild sinni, hefur látið mikið á sjá síðustu ár. Margir sem málið varðar, Samtök ferðaþjónustunnar, löggæslan, sveitarfélög og fleiri, hafa lýst verulegum áhyggjum af bagalegu ástandi samgöngumannvirkja, ekki síst veganna. Ástandið er slæmt á landsvísu en þó eru landshlutarnir misvel settir í samgöngumálum. Samkvæmt Hagvísi Vesturlands sem kom út fyrr í sumar er ljóst að staðan er verst í Norðvesturkjördæmi, sérstaklega á Vestfjörðum og Vesturlandi. Hagvísirinn byggir á staðtölum frá Vegagerðinni og skoðanakönnunum meðal íbúa og fyrirtækja á svæðinu um umferð og ástand vega. Gögnin leiða í ljós að norðvesturhornið og Vesturland reka lestina þegar kemur að fjölda vega með bundnu slitlagi. Á norðvestanverðu landinu er um þriðjungur vega með bundið slitlag en Vesturland, sem er í næstneðsta sæti, er með bundið slitlag á 39% vega innan svæðis. Til samanburðar má nefna að á Suðurnesjum voru 84% vega með bundnu slitlagi árið 2014 og þó hefur umferð frá 1980 aukist hlutfallslega mest til Vesturlands í samanburði við t.d. Reykjanes og Suðurland. Ég nefni þetta ekki til að metast við Sunnlendinga eða Suðurnesjamenn um vegafé heldur til að árétta að við verðum að hafa heildarmyndina fyrir augum þegar verið er að skipta og ráðstafa almannafé. Jöfnuður milli landshluta veltur ekki síst á samgöngum því að samgöngurnar eru lífæðar samfélaga. Á þeim veltur atvinnulíf og öll búsetuþróun. Til að ná jöfnuði þarf að beita samanburði, oft og tíðum.

En í þessu ljósi er fagnaðarefni að minni hluti umhverfis- og samgöngunefndar skuli í nefndaráliti sínu benda á þörfina fyrir brýnar vegabætur á Vestfjörðum og Vesturlandi. Í nefndaráliti minni hlutans er vakin athygli á þörfinni fyrir átak í héraðs- og tengivegum um allt land en sérstaklega þó þörfinni fyrir vegaframkvæmdir við Látrabjarg þar sem vegurinn er óboðlegur og beinlínis skaðlegur ökutækjum; í Árneshreppi þar sem enn er ekki hægt að tala um heilsárssamgöngur; á Skógarströnd og í Dölum þar sem slysatíðni er mest á Vesturlandi. Í Dalabyggð er fimmta hættulegasta vegakerfið meðal íslenskra sveitarfélaga samkvæmt þeim hagvísi sem ég vitnaði til áðan. Við vitum að aukinni umferð undanfarin ár hefur fylgt aukin slysatíðni. Fyrir utan höfuðborgarsvæðið og Suðurnes þar sem umferðin er þyngst var slysatíðnin mest á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi.

Ég tek þess vegna heils hugar undir þá tillögu minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar að nú þegar verði bætt 2,5 milljörðum við það fjármagn sem veitt er til viðhalds vega á næstu tveimur árum og 1 milljarði til viðbótar til að bæta öryggi á vegum. Verkefnin eru mörg og brýn. Eins og vegamálastjóri hefur bent á eru erlendir ferðamenn ekki vanir að aka við þau skilyrði sem íslenska vegakerfið býður upp á. Hér þarf því að skilja að akstursstefnur, útrýma einbreiðum brúm, laga gatnamót og fjölga útskotum svo fátt sé nefnt.

En svo ég haldi mig við brýnar framkvæmdir í kjördæmi mínu þar sem ég þekki best til þá vekur óneitanlega athygli að ekki skuli enn bóla á Sundabraut eða framkvæmdum við Hvalfjarðargöng. Í þessari tillögu að samgönguáætlun er ekki gert ráð fyrir fjárveitingum til Sundabrautar en rætt um að skoða kosti þess að gera Sundabrautina í einkaframkvæmd. Hvalfjarðargöngin eru varla nefnd á nafn í áætluninni og má þó öllum ljóst vera að þau bera varla meiri umferð en orðin er í núverandi ástandi. Samningur Spalar og ríkisins fer að renna út en ekki eru greinanleg nein merki um frekari framkvæmdir, hvorki af hálfu Spalar né hins opinbera, ef marka má fréttir að undanförnu. Það er auðvitað áhyggjuefni í ljósi þess sívaxandi umferðarþunga sem nú þegar er farinn að ganga nærri helstu stofnbrautum að og frá höfuðborginni og um Hvalfjarðargöng.

Þá vil ég nefna aðra framkvæmd sem allir sjá og vita að er brýn en er hvergi nefnd í áætlunum um samgöngumál. Það eru Álftafjarðargöng, jarðgöng milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar, milli Ísafjarðar og Súðavíkur, til að leysa af hólmi hina illræmdu Súðavíkurhlíð. Þar er um að ræða mikið umferðaröryggismál fyrir alla þá fjölmörgu sem daglega þurfa að ferðast milli Súðavíkur og Ísafjarðar á vetrum, m.a. börn í skólabílum. Vegurinn um Súðavíkurhlíð inn Djúp er helsta samgönguæð íbúa á Ísafirði í þjóðvegakerfinu yfir vetrarmánuðina. Á hlíðinni er 22 skilgreind snjóflóðagil og þess eru dæmi í einstökum veðrum að flóð hafa fallið úr þeim öllum á örfáum dögum. Það gerðist fyrir fáum árum. Þá féllu 20 snjóflóð á Súðavíkurhlíð og tepptu þar með allar bjargir og aðföng frá Ísafirði. Þær aðstæður sem þar mynduðust voru og eru á öllum tímum óásættanlegar fyrir íbúa á norðanverðum Vestfjörðum sem sækja heilbrigðisþjónustu og aðra grunnþjónustu til Ísafjarðar. Úttektir sýna að snjóflóðum á Súðavíkurhlíð hefur fjölgað mjög eftir 1991 vegna breytinga á veðurfari og ríkjandi vindátta sem valda snjósöfnun og flóðum í hlíðinni. Þannig mældust 56,2 snjóflóð á ári á Súðavíkurhlíð 1991–2000 samanborið við 42,7 á hinni stórhættulegu Óshlíð sem nú hefur verið leyst af hólmi með jarðgöngum milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur. Úttektaraðilar hafa bent á að jarðgöng séu eina aðgerðin sem tryggt getur fyllsta öryggi á þessari leið auk þess sem þau mundu stytta vegalengdina milli byggðarlaga töluvert með tilheyrandi hagræði og úrbótum fyrir samskipti, atvinnulíf og þjónustu á svæðunum. Þetta er því mál sem þarf að komast á dagskrá.

Á síðasta kjörtímabili flutti ég þingsályktunartillögu um að Álftafjarðargöng yrðu þegar sett inn á samgönguáætlun sem næsta jarðgangaframkvæmd á Vestfjörðum á eftir Dýrafjarðargöngum. Málið náði ekki fram að ganga. Ég lagði sömu tillögu fram á ný síðastliðið vor með stuðningi allra þingmanna Norðvesturkjördæmis en tillagan hefur enn ekki fengist tekin á dagskrá. Það er hins vegar brýnt að taka þetta mál til faglegrar umfjöllunar og koma Álftafjarðargöngum inn í forgangsröðina á samgönguáætlun. Þess vegna er ánægjulegt að sjá að minni hluti umhverfis- og samgöngunefndar leggur til að ráðist verði í athuganir fyrir gerð Álftafjarðarganga. Ég minni á að árið 2006 skrifuðu 1.439 íbúar á norðanverðum Vestfjörðum undir áskorun til ríkisstjórnar um að hefja þá þegar rannsóknir og undirbúning að jarðgangagerð milli Súðavíkur og Ísafjarðar út frá samfélagslegum og öryggissjónarmiðum. Fjórðungssamband Vestfirðinga hefur oftsinnis ályktað um sama mál.

Virðulegi forseti. Að lokum: Því fer fjarri að þessi samgönguáætlun fullnægi brýnustu framkvæmdaþörfinni í samgöngumálum okkar, hvorki vegaframkvæmdum, hafnarframkvæmdum né flugframkvæmdum. Sumt fá menn ekki við ráðið. Vandræðin við leiðarval í Gufudalssveit og Barðaströnd, þ.e. leiðin um Teigsskóg hefur strandað á öðru en stjórnvöldum. Við því er ekkert að gera. Dýrafjarðargöngin aftur á móti hafa dregist úr hömlu. Þeim var frestað enn einn ganginn af þessari ríkisstjórn við upphaf kjörtímabils. Göng sem hafa gríðarlega þýðingu fyrir þróun og möguleika byggðar og atvinnulífs á Vestfjörðum, tengja saman atvinnu- og búsetusvæði, stjórnsýslustofnanir og sveitarfélög, göng sem samkvæmt fyrstu jarðgangaáætluninni áttu að verða fyrsta jarðgangaframkvæmdin eru fyrst nú að komast í útboð. Guð láti gott á vita og vonandi verða ekki frekari tafir þar á. En það verður að viðurkennast að sporin hræða. Þó að áform ríkisstjórnarinnar í samgöngumálum séu rýr í roðinu, eins og þessi áætlun sýnir, er engu að síður mikilvægt að hún verði samþykkt svo eitthvað fáist þó gert í samgöngumálum. Sömuleiðis er mikilvægt að allar þær breytingartillögur sem fram eru komnar og viðaukar við áætlunina frá bæði meiri hluta og minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar fái samþykki hér í þinginu. Þegar framkvæmdarvaldið bregst verður þingið að taka til sinna ráða. Það ætti Alþingi að gera núna. Peningarnir eru til og öllum er ljóst að þörfin er brýn.