145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

starfsáætlun og framhald þingstarfa.

[13:31]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka forseta fyrir að taka af öll tvímæli um að þessi ósk er fullkomlega eðlileg í ljósi þess að í dag rennur út starfsáætlun sú sem í gildi er. Það er algerlega óeðlilegt annað en að við setjumst yfir það með einhverjum hætti, þingflokksformenn, hvað standi til af hendi forseta. Við getum ekki farið inn í næstu viku án þess að það séu einhver plön sem liggja fyrir um hvað standi til af hálfu meiri hlutans. Við höfum margoft bent á það að við erum í algeru tómarúmi. Það er algert stjórnleysi hér. Það er engin sýn sem kemur af ráðherrabekknum. Það er lag fyrir Alþingi sjálft að taka málin í sínar hendur, fyrir forseta að taka utan um þá stöðu sem upp er komin og setjast yfir það sem raunhæft er að klára í dag og á þeim tíma sem er fyrir hendi. Við þurfum, virðulegur forseti, að fá fund, við þingflokksformenn, með hæstv. forseta.