145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

starfsáætlun og framhald þingstarfa.

[13:34]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mér hefur frá því að ég settist hér fyrst á þing oft blöskrað það ógegnsæi sem er viðhaft alla jafna við stjórn þingsins. Af því að ég er í hópi þeirra þingmanna sem eru að hverfa af þingi nú við lok þessa kjörtímabils vil ég fá að segja, af þessu tilefni, að það er auðvitað ekki boðlegt að ekki skuli alltaf liggja fyrir a.m.k. vikudagskrá sem birt er þingmönnum þannig að þeir geti undirbúið sig fyrir þau mál sem eru fram undan, undirbúið ræður sínar, lesið vel og komið vel undirbúnir til umræðna. Það er stjórnunaraðferð að dylja og gefa ekki upp fyrirætlanir. Það er stjórnunaraðferð sem hefur fengið slæmar nafngiftir í stjórnsýslufræðum og stjórnunarfræðum og er kölluð valdníðsla. Því miður er þessi valdníðsla hefð í þinginu og ekki endilega háð (Forseti hringir.) einum stjórnarmeirihluta frekar en öðrum. Ég tek undir bænir þingmanna að þessu sinni um að það verði upplýst núna hvernig næstu dagar til þingloka munu líta út.