145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

starfsáætlun og framhald þingstarfa.

[13:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég fagna orðum sitjandi virðulegs forseta þegar kveðið var upp úr um það hér áðan að það væri óeðlilegt að ekki væri farið að tala saman á þessum tímapunkti. Ég vil upplýsa virðulegan sitjandi forseta um að þetta hefur legið fyrir frá því í lok síðustu viku. Á mánudaginn var talað um að það þyrfti að tala saman á mánudaginn eða í allra síðasta lagi á þriðjudaginn. Svo núna þegar við förum að benda á það að við eigum einmitt að tala saman þá fer allt í lás hjá stjórnarmeirihlutanum. Ég vona að virðulegi sitjandi forseti, sem einnig er hv. 6. þm. Norðaust. fyrir Sjálfstæðisflokkinn, fari til flokkssystkina sinna og upplýsi þau um þetta óeðlilega ástand sem virðulegur sitjandi forseti hefur bent á að sé til staðar. Hér er ungt fólk, sýnist mér, á pöllunum að horfa á okkur á seinasta degi þingsins. Þetta er staðan sem er komin upp. Er þetta til sóma á Alþingi? Ættum við ekki að vera að sýna Alþingi upp á sitt besta þegar (Forseti hringir.) fólk er hér að horfa á okkur? Þetta er til skammar, virðulegi forseti, og það liggur hjá (Forseti hringir.) meiri hlutanum að laga þetta. Hann hefur haft til þess ærin tækifæri og tilefni. Það á bara að fara að standa í lappirnar og gera eitthvað af viti. Þetta er ekki flókið.(Forseti hringir.) Þetta er ekki ósanngjarnt. Þetta er mjög sjálfsagt. Þetta er einfalt og hefur verið einfalt dögum saman.