145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

starfsáætlun og framhald þingstarfa.

[13:45]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég er mjög leið yfir þeirri stöðu sem er komin upp. Nú gerðist það í apríl að skyndilega beindust sjónir heimsins að Íslandi vegna þess að við reyndumst vera með forustumenn ríkisstjórnarinnar í Panama-skjölunum. Við vorum á útsíðum blaðanna og á vefjum fjölmiðla úti um allan heim vegna þess að við settum met, þrír ráðherrar íslensku ríkisstjórnarinnar voru í Panama-skjölunum. Þetta var til háborinnar skammar. Heimurinn horfði á: Hvernig ætlar Ísland að leysa úr þessu? Hvað ætlar Ísland að gera í þessu máli? Það sem gerist er að forsætisráðherrann segir af sér, fjármálaráðherrann situr sem fastast og núna er staðan sú, þegar við erum hér á síðasta degi þingsins fyrir kosningar sem var flýtt vegna þessa máls, að þingið er bara eins og afvelta. Hefur forseti ekki þann sóma að reyna að halda þó að minnsta kosti utan um Alþingi Íslendinga þótt framkvæmdarvaldið hafi sannarlega orðið sér til skammar?