145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

starfsáætlun og framhald þingstarfa.

[13:50]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þarf því miður að miðla smálexíu til þessa langhæstvirta fólks þarna uppi, útskýra á minna en einni mínútu hvað er í gangi. Það sem er í gangi er að Alþingi hefur nú í dágóðan tíma, í mörg ár, virkað þannig að eina leiðin fyrir svokallaðan minni hluta, sem er í stjórnarandstöðu, til þess að komast í einhver samtöl við meiri hlutann er með því að sóa tíma, eyða alveg óheyrilega miklum tíma og búa til þrýsting. Þetta er hefð sem var reyndar afnumin í vor í viðleitni minni hlutans til þess að reyna að bæta þingstörfin. Lexían sem við erum að læra á þessari viku núna, á síðasta degi starfsáætlunar Alþingis, er sú að það borgi sig ekki að vera málefnalegur, að það borgi sig ekki að ræða málin til þess eins að ræða þau. Það borgar sig að sóa tíma, það borgar sig að vera leiðinlegur, það borgar sig að vera ömurlegur þingmaður til þess að fá áheyrn meiri hlutans. Það er lexían sem við erum að læra í dag. Fyrirgefið, virðulegi forseti, að ég hafi þurft að miðla þessari lexíu.