145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

starfsáætlun og framhald þingstarfa.

[13:53]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram að það er óþolandi að vera settur í þá aðstöðu að þurfa að fara í málþóf eða leiðindi til þess að pína ríkisstjórnina til að tala við okkur. Mér finnst málþóf af hinu illa alla jafna og fer ógjarnan í það, en þegar verið er að setja okkur í þá stöðu er mér eiginlega misboðið. Ég vil beina því til virðulegs forseta, sem virðist vera einhvers konar tengiliður þingsins við stjórnvöld, að koma því á framfæri að nú þarf eitthvað að fara að gerast í þessum málum og þótt fyrr hefði verið. Við förum ekkert inn í næstu viku hérna eins og ekkert hafi í skorist. Og heyra hæstv. fjármálaráðherra segja það hér í gær eða fyrradag að málunum vindi bara fram, við munum bara sjá til hvernig málum vindur fram. Það er ekki boðlegt að koma með svona yfirlýsingar. Það er hlutverk virðulegs forseta að stýra þinginu og tryggja það að við munum (Forseti hringir.) ljúka þingi á sómasamlegan hátt. Ef menn þurfa að fá aðstoð frá einhverjum forsetum Norðurlandanna sem hafa reynslu af þessu máli þá þarf bara að fljúga þeim inn.