145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

starfsáætlun og framhald þingstarfa.

[13:54]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta er auðvitað alveg ótrúleg staða. Núna þegar aðeins nokkrir klukkutímar eru eftir af þingstörfunum er ekki búið að boða þingflokksformenn á fund og við erum með dagskrá sem lítur þannig út að það eru tvö mál á henni sem eiga að koma til 1. umr. Hvað er það? Hvernig dettur einhverjum í hug að við eigum að geta tekið mál á dagskrá og klárað þau á örfáum klukkutímum? Sómi okkar sem þingmanna hlýtur að vera meiri en svo að við viljum standa að svoleiðis afgreiðslu. En þetta undirstrikar auðvitað það eitt að hér hefur ekki verið nein stefna. Það er búið að liggja fyrir í margar vikur að dagskrá Alþingis eigi að ljúka í dag. Þess vegna er í raun ekki hægt að gera neitt annað en að kalla enn og aftur eftir því að nú verði sest niður og fundað. Tíminn er einfaldlega (Forseti hringir.) að renna frá okkur hérna. Við getum ekki haldið svona áfram og svo veit enginn hvað eða hvort eitthvað gerist á mánudaginn.