145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

starfsáætlun og framhald þingstarfa.

[14:00]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Samkvæmt starfsáætlun eru fjórir, fimm tímar eftir af þessu lengsta þingi Íslandssögunnar. Hvað er í gangi? Það eru þrír þingmenn stjórnarflokkanna hérna, líklega til þess að sýna einhvern lit, en það er engin tilraun gerð til þess að nálgast okkur stjórnarandstöðuflokkana í því að taka ákvarðanir um það hvernig við ætlum að ljúka þessu þingi. Vanvirðingin er algjör og fullkomin. Við sitjum hér og reynum að koma hverju málinu á fætur öðru áfram, við erum að ræða samgönguáætlun sem við ætlum að styðja, við ætlum að styðja hverja einustu breytingartillögu stjórnarmeirihlutans. Við erum að reyna að vinna eins vel og við getum þannig að menn geti komið sér áfram og inn í kosningar og okkur er mætt með þögn og vanvirðingu.

Virðulegi forseti. Þetta kallar að mínu mati á það að hlé verði (Forseti hringir.) gert á þessum fundi og farið yfir hvernig síðustu fjórir klukkutímar starfsáætlunar eigi að nýtast.