145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:27]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, þetta með merkingarnar, þótt ég þekki Reykjavík ágætlega þá hef ég ótrúlega oft lent í að keyra einhverjar krúsidúllur af því að ég veit að ég er að fara upp í Árbæ en svo eru þessar austur- og vesturmerkingar og það getur verið flókið. Ég held að þetta sé eitthvað sem kostar ekki endilega mikið og sé hægt að gera mjög mikið í. Við höfum auðvitað talað um merkingar við einbreiðar brýr sem ferðamenn þekkja kannski ekki einu sinni og þarna held ég að við getum gert mikið fyrir ekki endilega svo mikinn pening. Ég veit svo sem að Vegagerðin er meðvituð um það.

Það eru gerðar breytingartillögur við samgönguáætlun sem ég skil sem svo að allir nefndarmenn séu sammála. Það er gott. Það er líka verið að velta fyrir sér í meirihlutaálitinu sem mér finnast áhugaverðar pælingar varðandi flugsamgöngur og hlutverk Isavia, þó að það sé ekki beinlínis verið að leggja neitt til í þeim efnum, að Isavia sjái um rekstur millilandaflugvallanna. Ég las þetta líka í blöðunum í dag. Það hefur verið gagnrýnt að menn séu að setja mjög mikla peninga í uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli sem er eflaust samt nauðsynleg. Var þetta eitthvað sem minni hlutinn hafði skoðanir á? Þá á ég við bæði innanlandsvellina og þá sem eru skilgreindir sem millilandaflugvellir og eru væntanlega bara Akureyri og Egilsstaðir held ég fyrir utan Keflavík.