145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:53]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég tek undir þetta með henni og það er í rauninni skömm að því þegar maður horfir á framlagið sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Eftir hrun með ríkissjóð nánast gjaldþrota var samt brugðist rétt og skynsamlega við, þ.e. það var farið í framkvæmdir. Ef við hugleiðum það þá er það svo að á þeim þremur árum sem þessi ríkisstjórn hefur setið eru í rauninni engar nýframkvæmdir. Það sem er verið að gera, stóru framkvæmdirnar eins og Norðfjarðargöng og fleira, kemur í raun allt saman til á síðasta kjörtímabili. Svo gumar ríkisstjórnin af góðri afkomu, en á meðan eins og ég sagði í minni ræðu eru innviðirnir látnir blæða. Auðvitað finnst manni það mjög sérstakt að ekki sé meiri metnaður fyrir því að berjast fyrir auknu fjármagni af hálfu ráðherrans gagnvart fjármálaráðherra fyrir þennan málaflokk sinn. Eins og hv. þingmaður kom inn þá er ferðamannafjöldinn gríðarlegur. Við höfum heyrt frá Vegagerðinni að öryggi sé orðið ábótavant þó að reynt sé að halda því í viðunandi horfi, en við sjáum þau slys sem hafa orðið og annað slíkt, það er m.a. vegna þess að vegakerfið okkar er bara ekki í lagi.

Svo tek ég undir það og vil undirstrika að við viljum dreifa ferðamönnum, hvort sem það er á vegunum eða í fluginu af því ég gerði það töluvert að umtalsefni í ræðu minni. Það er partur af því að það hefur engu verið fylgt eftir, þ.e. þessari aukningu hefur ekki verið fylgt eftir með neinum hætti í innviðauppbyggingu eða dreifingu ferðamanna.