145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:55]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef við beinum í seinna andsvari sjónum að kjördæminu góða sem við tilheyrum og ég veit að hv. þingmaður ætlar að ræða hér betur síðar, þá er veitt framlag í flughlaðið góða, það er kannski ekki seinna vænna því að það er varla lengur hægt að keyra um Vaðlaheiði, þetta er orðinn svo mikill hraukur. En það er nú kannski ekki stóru peningarnir. Það sem mikið hefur verið talað um og við þekkjum eru framkvæmdirnar við Berufjarðarbotn og svo vegurinn yfir Öxi. Ég held að hv. þingmaður þekki þetta betur en ég. Ég hélt að menn væru að fara í framkvæmdirnar í Berufjarðarbotni, það lægi fyrir. En hvað varðar Öxi þá finnst mér það töluvert mikilvæg framkvæmd vegna þess að það er vegur, þótt það sé kannski ekki hægt að nota hann alveg yfir háveturinn, sem styttir gríðarlega leiðina frá suðurfjörðunum upp á Hérað og er vegur sem ég veit að menn eru að berjast fyrir þarna á suðurfjörðunum. En Berufjarðarbotn er ekki síður mikilvægur.

Ég er að vitna í nefndarálit minni hlutans. Þar finnst mér líka áhugavert að talað er um að það ætti að ráðast í athuganir fyrir gerð Álftafjarðarganga og rannsókn verði gerð á algjörum aðskilnaði á akstursstefnum milli Reykjavíkur og Akureyrar. Þetta hljómar eins og tónlist í mínum eyrum vegna þess að það er bara þannig fyrir alla sem búa úti á landi sem þurfa að sækja sér þjónustu suður að það þarf að keyra þessa leið. Ef ég er einhvern tímann hrædd um börnin mín er það þegar þau eru á bíl á milli Akureyrar og Reykjavíkur vegna þess að því miður verða oft alvarlegustu slysin úti á þjóðvegunum og víða eru þeir bara alls ekki nógu góðir. Tvöföld akstursstefna er væntanlega (Forseti hringir.) það úrræði sem er öruggast. Auðvitað yrði þetta gríðarlega dýrt, en maður mundi vilja sjá tvöfalda akstursstefnu gerast í einhverjum köflum, (Forseti hringir.) alveg eins og einu sinni var vegurinn á milli ekki malbikaður. Það er ekkert svo óralangt síðan það var þannig. Hvað segir hv. þingmaður um þetta?