145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:58]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er þetta með flughlaðið okkar góða af því að við vorum nú að keyra fram hjá þessum hrauki fyrir stuttu, þetta er orðið risavaxið þarna fyrir framan Vaðlaheiðargöngin. Það er eiginlega merkilegt og ég segi það enn og aftur, mér finnst þetta bera pínulítinn vott um að kosningar eru fram undan, það er kosningalykt af þessu plaggi vegna þess að nú er hægt að setja einhverja fjármuni í þetta. Veit ég þó að formaður nefndarinnar hefur barist mjög fyrir þessu flughlaði. Það skiptir jú allt máli, þetta eru ekki stórar fjárhæðir, en þetta skiptir auðvitað máli fyrir innanlandsflugið.

Hvað varðar Berufjarðarbotn þá á sú framkvæmd, samkvæmt þeirri langtímaáætlun sem hefur verið lögð fram, ekki að klárast fyrr en á næsta tímabili áætlunarinnar, í kringum 2019. Það voru deilur á milli landeigenda sem urðu til þess að verkið tafðist. Nú hefur það verið leyst af hálfu sveitarfélagsins þannig að það er allt klárt. Það hefur bara bókstaflega verið beðið eftir fjármunum í þetta verkefni. Þess vegna hefur auðvitað verið lögð áhersla á það að samgönguáætlun klárist. Ég tek undir með hv. þingmanni að þetta er eitt af því sem er mjög mikilvægt, ekki bara að vegirnir séu ekki svona stórkostlega ónýtir eins og sá vegur er orðinn heldur til að tryggja öryggi og fyrir búsetukjör fólks þarna, það skiptir líka máli, ekki bara ferðamennirnir.

Undirbúningur fyrir gangagerðina, bæði Seyðisfjarðargöngin eins og hjá okkur og Dýrafjarðargöngin er auðvitað afar mikilvægt atriði. Þetta eru næstu stórframkvæmdir, þessar tvær framkvæmdir í gangagerð að mínu mati.

Varðandi öryggi á milli höfuðborgarsvæðis og annarra kjördæma, þ.e. á þjóðveginum og að tvöfalda akstursstefnu, þá er það mjög brýnt mál og sérstaklega á milli Akureyrar og Reykjavíkur og líka upp á að almenningssamgöngurnar séu sómasamlegar, mér finnst það líka skipta máli og ekki síst til að öryggismálum sé fylgt eftir í hvívetna. (Forseti hringir.) Ég held þetta væri mjög skynsamleg ákvörðun ef hún mundi ná hér í gegn.