145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:00]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Frammistaða ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í þessum samgöngumálum á kjörtímabilinu er með þeim endemum að sennilega á það sér engar hliðstæður, að teknu tilliti til aðstæðna og að breyttu breytanda, nema þá helst kannski viðreisnarstjórnina. Mig rekur minni til að það var talað heldur illa um hana á landsbyggðinni, hún hefði skammtað naumt til uppbyggingar í vegamálum og gerðist víst lítið á þeim árum þangað til vinstri stjórnin tók við 1971 og setti mikinn kraft í uppbyggingu vega. Þetta er einfaldlega alveg hörmuleg frammistaða hjá stjórnarflokkunum þessi rúmu þrjú ár. Þetta eru þrjú glötuð ár. Það er mjög sorglegt að framan af þessum tíma a.m.k. voru kjöraðstæður til að spýta í lófana með uppbyggingu innviða og fjárfestingar, styðja við batann í efnahagslífinu og draga þá frekar úr framkvæmdum ef menn færu að hafa áhyggjur af ofhitnun hagkerfisins. Á árunum 2013, 2014, 2015 fengust mjög góð tilboð í verk, gjarnan undir kostnaðaráætlun, en núna er þetta farið að breytast, skiljanlega, það er orðin meiri þensla í hagkerfinu.

Á þessum glötuðu árum bera núverandi stjórnarflokkar alla ábyrgð. Það er alveg sama hvernig á er litið, að við skulum vera hér seint í september á áætluðum síðasta starfsdegi þingsins eftir að starfsáætlun var framlengd að reyna að koma í gegn fyrstu samgönguáætlun þessarar ríkisstjórnar. Hún er í andarslitrunum, á síðustu metrunum, og þá kannski fer þetta í gegn. Það má nefna sem fyrstu stóru vanrækslusyndina. Hún hefur einfaldlega ekki unnið samkvæmt lögum. Hún hefur ekki mannað sig upp í að koma hér með samgönguáætlanir og tryggja þá með meiri hluta sínum á þingi að þær fengjust afgreiddar. Af hverju er það? Það er vegna þess að samgönguáætlanirnar sem voru sýndar í fyrra og hittiðfyrra voru svo hörmulegar að stjórnarliðar sjálfir höfðu engan áhuga á að afgreiða þær. Þeir treystu sér einfaldlega ekki til þess þegar út í það var komið.

Það er auðvitað alveg dæmigert að hér sést ekki einn einasti stjórnarþingmaður í salnum. Enginn. Hvar eru forsvarsmenn málsins úr meiri hlutanum? Hvar er hæstv. ráðherra þegar þessi stóra stund er upp runnin eftir á fjórða ár að við erum hér í seinni umræðu um fyrstu samgönguáætlun þessarar ríkisstjórnar? Nei, það sést undir iljarnar á þeim í allar áttir. Ég þykist hafa séð á vefnum að hæstv. ráðherra sé að opna bryggjustúf, klippa á borða og opna bryggjustúf úti á landi frekar en að vera í þinginu til að svara fyrir málaflokkinn.

Það hefur engin aukning orðið á fjárveitingum þessi þrjú ár og í raun frekar samdráttur árið 2014, þrátt fyrir verulega batnandi þjóðarhag, þrátt fyrir mjög mikla aukningu umferðar og æpandi þörf sem allir eru sammála um. Það er alveg sama hvar borið er niður, Vegagerðin sjálf segir að þetta sé neyðarástand, Samtök ferðaþjónustunnar, sveitarfélögin, íbúarnir sem búa við þetta vegakerfi. Það er alveg sama hvar borið er niður, allir eru sammála um eitt, vegakerfið á Íslandi er að grotna niður. Þess vegna eru þrjú glötuð ár dýr í þeim efnum.

Yfirgengilegasta vanrækslan að mínu mati hjá þessari ríkisstjórn, það sem mér er með öllu óskiljanlegt, er að þeir skuli ekki einu sinni hafa látið markaðar tekjur til vegamála fylgja verðlagi. Ég reyndi að gagnrýna þetta bæði í fyrra og hittiðfyrra við afgreiðslu fjárlaga. Eitt árið voru þær ekki hækkaðar neitt, annað árið um sirka helming af áætlaðri verðbólgu eða uppfærslu fjárlaga. Það hefur leitt til þess að myndast hefur slaki í þessar mörkuðu tekjur upp á 7–8 milljarða. Þetta er þeim mun tilfinnanlegra sem verulega aukin umferð hefði að sjálfsögðu skilað sínum tekjuauka ef mörkuðu tekjurnar, sérstaka bensíngjaldið, olíugjaldið, þungaskatturinn og þetta, hefði verið látið fylgja verðlagi. Það er sjálfsagt kominn þarna mínus upp á vel á annan tug milljarða í tíð þessarar ríkisstjórnar. Af því hefði mátt nota hverja einustu krónu í viðhald og nýbyggingar. Það er líka glataður tími, glataðar tekjur. Það er ekki eins og þetta hafi verið erfitt vegna þess að verðbólgan væri erfið viðureignar eða eldsneytisverðið mjög hátt svo menn kveinkuðu sér við að hækka þessar mörkuðu tekjur. Nei, verðbólgan hefur verið vel undir viðmiðunarmörkum í meira en tvö ár og bensín- og olíuverð á heimsmarkaði lækkaði um ein 30–40%, ef ekki meira. Útsöluverðið hér heima hefur lækkað um 50–70 krónur á lítrann. Það hefði enginn tekið eftir því þótt nokkrar krónur hefðu komið í áföngum inn í bensíngjaldið og olíugjaldið til þess að halda þessum tekjum uppi.

Þetta er satt best að segja ótrúleg frammistaða. Menn eru síðan að glíma við að gríðarleg aukning ferðamanna til landsins, sem í vaxandi mæli ferðast sjálfir á bílaleigubílum, hefur heldur betur verið að minna á sig. Það nægir að nefna hin sorglegu slys, alvarleg slys og jafnvel dauðsföll á erlendum ferðamönnum sem eru orðin umtalsverður hluti allra umferðarslysa í landinu. Það er m.a. vegna þess í hvernig ástandi vegakerfið er, það er vegna þess að merkingar eru ekki fullnægjandi og margt fleira, sem ég hef reyndar lagt fyrirspurn fyrir hæstv. ráðherra um, hvort menn ætli eitthvað að reyna að gera í þeim efnum, en engin svör fengið.

Svo er umferðin að aukast hjá okkur sjálfum eins og alltaf gerist þegar góður hagvöxtur hefur verið um eitthvert árabil og hagur fólks batnar. Þá ferðast það meira. Umferðin vex. Það eru aukin umsvif í atvinnulífinu, auknir flutningar vegna meiri umsvifa í atvinnulífinu o.s.frv. Auðvitað ættum við að skattleggja þessa umferð þannig að hún legði sitt af mörkum til að byggja upp vegakerfið, eða hverjir aðrir eiga að borga það?

Í nefndaráliti minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar er ágætlega gerð grein fyrir hlutföllum af vergri landsframleiðslu sem í þetta fara þessi árin. Það er alveg sláandi að þetta hlutfall fer lækkandi hjá þessari ríkisstjórn á fyrri hluta kjörtímabilsins. Það fer niður í botn, niður undir 1% af vergri landsframleiðslu á árinu 2014, þegar kraftaverkamennirnir miklu voru komnir til valda. Það er alveg yfirgengilegt. Á árinu 2015, í fyrra, nær þetta varla hlutfallinu á árunum 2012, 2013. Það er lægra en 2011. Þannig er nú frammistaðan. Það er lítið skárra ástand í ár, eins og við vitum. Jú, þá ætla þeir að vísu með breytingartillögum núna að segja að þetta sé aðeins á uppleið á næsta ári. Það er kosningavíxillinn, heldur síðbúinn. Og reyndar frekar rýr. Ég verð að segja alveg eins og er að ég hefði ekki gagnrýnt það, nema síður sé, og við í minni hlutanum, þótt þeir hefðu slegið um sig með miklu myndarlegri breytingartillögum með meiri hækkunum núna. Það eru allir sammála um að þess þarf. Samgönguáætlunin sem kom fram í vor var með þvílíkum endemum að það var ekkert við það plagg að gera nema henda því. Nú viðurkenna þingmenn meiri hlutans það. Þeir eru auðvitað að viðurkenna upp á sig skömmina með breytingartillögum, klóra í bakkann. Hafa sennilega ekki verið spenntir fyrir því að fara í kosningabaráttu út í sín kjördæmi, ef þeir þá láta sjá sig þar, með samgönguáætlun á bakinu. En nú er aðeins klórað í bakkann og settur milljarður í viðhald á hvoru ári, eitthvað aðeins í tengivegi og svo smurt svona 100–200 milljónum hingað og þangað inn í framkvæmdir sem kosta 1 og 2 og 3 milljarða, til að segja við menn í Bárðardal eða Borgarfirði eystri eða einhvers staðar annars staðar: Það er aðeins sett eitthvað til ykkar. En það er 1/10, 1/20, 1/30 af því sem mundi kosta að klára viðkomandi framkvæmd. Framhaldið er síðan ósköp magurt.

Ég sá í fréttum um daginn að Vegagerðin hefur kortlagt að það kosti um 400 milljarða að koma vegakerfinu á Íslandi í það horf sem við vildum hafa það, í fullnægjandi horf miðað við þá staðla sem við byggjum á í dag og reynum að byggja nýja vegi samkvæmt. Ef við ætluðum að endurnýja vegakerfið og koma því öllu upp í staðal kostar það um 400 milljarða. Heildarfjárveitingarnar til stofnkostnaðar og í jarðgöng á öllu tímabili langtímaáætlunarinnar sem þessi ríkisstjórn leggur fram er eitthvað um 150 milljarðar. Það er rétt um 1/3 af því. Auðvitað er enginn að gera endilega kröfur til þess að þetta náist allt saman á einu tímabili langtímaáætlunar, en þetta sýnir okkur hvað við erum langt frá því að ná þeim markmiðum sem við hljótum að setja okkur í þessum efnum, að Ísland eignist að lokum fullnægjandi nútímalegt vegakerfi sem fullnægi öllum stöðlum, öryggisreglum, kröfum um burðarþol og annað því um líkt. Þá þarf meira til, mikið meira, og að sjálfsögðu verður og á umferðin að uppistöðu til að borga þær framkvæmdir. Það er sú skipan mála sem við höfum haft á, að umferðin sé skattlögð. Ég tala nú ekki um meðan hún notar enn að mestu leyti jarðefnaeldsneyti með tilheyrandi losun gróðurhúsalofttegunda, þá á að sjálfsögðu að skattleggja það. Það eru líka þrjú glötuð ár að baki hjá þessari ríkisstjórn í því að hún hefur ekkert gert í að halda áfram að endurskoða skattalegt umhverfi umferðarinnar, ekki neitt, og vantar þó ekki upp á að eftir því hafi verið spurt.

Við gerðum miklar breytingar í þessum efnum á síðasta kjörtímabili, sem betur fer. Við gerðum skattkerfið í aðalatriðum grænt, við viðhéldum skattfrelsi fyrir umhverfisvæna orkugjafa, rafbíla, metanbíla o.s.frv. og við breyttum öllu andlagi skattlagningar á umferð þannig að það er koldíoxíðlosun sem myndar grunninn að skattlagningunni, hvort sem þú kaupir nýjan bíl og greiðir af honum tolla eða borgar bifreiðagjöld, því minna sem bíllinn losar af gróðurhúsalofttegundum, þeim mun vægari er skattlagningin. Þannig gerðum við okkar til að gera skattumhverfið á sviði umferðar grænt og hlúa að því að orkuskipti ættu sér stað í samgöngum. Hvað hefur þessi ríkisstjórn gert í framhaldinu? Ekki neitt. Jú, ég gleymi einu, hún lækkaði kolefnisgjaldið aðeins. Það var framlag þessarar ríkisstjórnar til loftslagsmála. Svo fór hún til Parísar og skrifaði undir samning. Þetta er mjög bagalegt vegna þess að það liggur alveg fyrir að móta þarf stefnu inn í framtíðina um það hvernig við ívilnum umhverfisvænum orkugjöfum í samgöngum, hvetjum til orkuskipta, en um leið vitum við að í fyllingu tímans verður þessi umferð líka að borga eitthvað og leggja af mörkum til vegamála. Til þess að menn geti þar af leiðandi treyst því að það verði hagkvæmt að vera á rafmagnsbíl eða metanbíl eða þess vegna vetni eða hvað það yrði, þá þarf að liggja fyrir til framtíðar stefnumörkun um þessa skattlagningu. Að því vorum við byrjuð að vinna í fjármálaráðuneytinu á sínum tíma meðan ég var þar en síðan hefur ekkert gerst. Það hefur slokknað á þessu eins og svo mörgu öðru hjá þessari blessuðu ríkisstjórn og alveg sérstaklega þegar kemur að öllu sem snýr að samgöngumálum.

Nú er það þannig að þegar menn skoða loftslagsmálin og hvað sé hægt að gera í þeim efnum, t.d. í nágrannalöndunum, ég var á góðri ráðstefnu í Stokkhólmi á þriðjudaginn um það mál og hefðu fleiri mátt sitja hana til enda, þá horfa menn sérstaklega á samgöngurnar. Af hverju er það? Vegna þess að þær eru nokkuð stór losandi og þær eru að uppistöðu til enn þá byggðar á jarðefnaeldsneyti. Landbúnaðurinn er vissulega nokkuð stór losandi í þessum löndum en þar eru möguleikarnir miklu takmarkaðri til að ná losuninni niður. Það eru samgöngur á landi alveg sérstaklega og auðvitað í lofti og sjó sem menn beina núna mjög sjónum að til þess að ná að verulegum skammti þaðan upp í markmiðin um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þess vegna er þetta alvörumál. Það á að heita svo að það sé hluti af áætlun okkar Íslendinga að ná árangri í þeim efnum. Enda er það þannig að við, svona heppin með okkar orkuframleiðslu, erum með stóran samgöngugeira. Vissulega eru millilandaflug og millilandasiglingar ekki inni í Parísarsamningunum en við erum með stóran innlendan fiskiskipaflota og við erum því miður með mikla flutninga á landi. Hér eru ekki járnbrautir og við vorum nú svo gæfusöm, eða hitt þó heldur, að leggja niður strandsiglingar 1992/1993, til stórkostlegs tjóns fyrir vegakerfið og í loftslagslegu tilliti líka. Það hefði betur aldrei verið gert. Ætli það væri ekki gaman að skoða sem lið í þessu hvað við mundum spara og hvaða árangri við mundum ná í losunarmálum og minna viðhaldi á vegakerfinu ef við styrktum strandsiglingar um nokkur hundruð milljónir á ári og værum með almennilega þjónustu hringinn í kringum landið, tvær viðkomur í hverri viku í hverri höfn? Þannig var það einu sinni. Þungaflutningarnir fóru að uppistöðu til um sjó, enda var vegakerfið svo bráðónýtt þá að það bar þá illa stærstan hluta ársins. En við vorum svona ótrúlega lánlaus í höndunum á misvitrum stjórnmálamönnum að leggja niður strandsiglingar á þessari eyju sem er með byggðina eins og keðju hringinn í kringum landið við ströndina, gersamlega rakið að nýta sjóinn eins mikið og hægt er og hlífa vegakerfinu fyrir þungaflutningum, sem eru ábyrgir fyrir langmesta slitinu á vegunum og líka að hluta til fyrir öryggismálunum. Þannig fór nú það, herra forseti.

Ég verð að segja eins og er að ég hef aðeins blaðað í langtímaáætluninni líka þótt mér sé alveg ljóst að hún er ekki á dagskrá í dag og verður ekki rædd á þessu þingi, kannski sem betur fer því að það þarf að endurskoða hana frá grunni þegar aftur komast einhverjir menn með metnað til valda í þessu landi. Þá verður þessu plaggi vonandi hent því að þetta gengur allt of hægt ef þetta ætti að verða framtíð okkar næstu 12 árin. Þar sjáum við hversu lítið miðar í stóru verkefnunum sem við ýtum algerlega á undan okkur og tökumst ekkert á við. Það gengur meira að segja ekki neitt að klára það sem á að vera í forgangi, að koma öllum byggðarlögum landsins og helstu tengivegum í þokkalegt ástand. Auðvitað getum við ekki boðið fólki á Borgarfirði eystra upp á það endalaust að þurfa að aka stórhættulegan malarveg til að komast í þjónustu og inn á vegakerfi landsins. Það er einn af síðustu þéttbýlisstöðunum í landinu, sem betur fer, sem býr við það ástand en þetta er ekki hægt. Það á að taka svoleiðis verk og setja þau í mikinn forgang. Það sama má segja um Langanesströndina og Brekknaheiði. Auðvitað er fáránlegt að eftir tugmilljarða fjárfestingu við að byggja upp alla norðausturleiðina, veg 85, úr Ljósavatnsskarði um Suður-Þingeyjarsýslu, gegnum Húsavík, Tjörnes, Kelduhverfi, Öxarfjörð, yfir Hófaskarð, Þistilfjörð, Langanesströnd, Vopnafjörð og upp á þjóðveg 1 í mynni Langadals, þá skulum við skilja eftir tvo malarbúta þannig að leiðin í heild sinni nýtist ekki sem skyldi. (Gripið fram í: Þetta er minjavernd.) Það eru jafnvel settar á hana þungatakmarkanir út af þessum tveimur malarbútum. Þetta er gáfuleg röðun á hlutunum. Auðvitað klára menn svona verk, alveg eins og núverandi ríkisstjórn var gert ljóst með kröftugum mótmælum að menn láta ekki bjóða sér annað en að klára Dettifossveg þegar búið er að setja fleiri milljarða í hann. En þar átti að koma stopp samkvæmt áætluninni. Breytingartillögurnar? Já, fínt, þetta kemur inn aftur. Skárra væri það nú, segi ég bara.

Ég get komið víðar við. Ég tel mig þekkja vegakerfi landsins nokkuð vel eftir talsverðar heimsóknir um allt land í starfi mínu undanfarna áratugi. Árneshreppur á Ströndum, það á svona eitthvað aðeins að sýna lit rétt í lokin á þessum áætlunum. Nýr vegur yfir Öxi, sem er alveg geysilega hagkvæm og mikil stytting fyrir þá umferð sem á leið austur með ströndinni og upp á Hérað eða inn á hringveginn. Að sjálfsögðu á að setja í gang í beinu framhaldi af því að menn klári Skriðdalinn. Svo gætum við farið að velta fyrir okkur stóru framtíðarmyndinni. Hvernig viljum við að þjóðleiðin vestur og norður um land frá Reykjavík til Akureyrar líti út eftir 10–15 ár? Er það ekki með nútímalegum vegi með aðskildum akstursstefnum? Eigum við að setja okkur eitthvað minni metnað en þann? Byrjum á því að fara a.m.k. upp í Borgarfjörð og austur fyrir Selfoss eða austur fyrir Hvolsvöll. En að sjálfsögðu þurfum við svo að leggja drög að því að við getum lokið því verki með veginn a.m.k. norður til Akureyrar. Við gætum byrjað út frá Akureyri og farið á móti, t.d. með aðskildar akstursstefnur norður að Moldhaugnahálsi og fram í Hrafnagil og austur fyrir Vaðlaheiðargöng o.s.frv., af því að þar er mikil umferð. Það er annað mesta umferðarsvæðið í þessum skilningi á landinu á eftir suðvesturhorninu eða svæðunum hér í kringum höfuðborgina. Þar er verk að vinna.

Tengingu Seyðisfjarðar, frammistöðuna í flugvallarmálum, flutninga á landi og mjög margt fleira, herra forseti, mætti ræða í miklu ítarlegra máli ef tíminn leyfði. Ég tek viljann fyrir verkið að því leyti að breytingartillögurnar eru að sjálfsögðu til bóta. Maður fagnar öllu, hversu lítið sem það væri í sjálfu sér, borið saman við þá hörmung sem búið er að bjóða upp á í þrjú ár og átti að bjóða upp á með þessari áætlun. Má ég þá minna á, þó að stjórnarliðar komi hér núna: Þetta var ríkisstjórnartillaga. Það stóð öll ríkisstjórnin og báðir stjórnarflokkarnir á bak við þá samgönguáætlun sem var lögð hér fram í fyrravor eða vor sem leið. Var það ekki? Ég ætla nú ekkert að fara að hrósa þeim upp úr rjáfrinu þótt þeir reyni núna aðeins að klóra í bakkann. (Forseti hringir.) Menn létu bjóða sér þetta. Menn samþykktu í þingflokkum stjórnarflokkanna svo seint sem síðastliðið vor að þessi hörmung yrði á borð borin.