145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:25]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar þá í seinna andsvari aðeins að spyrja út í flugvellina. Í nefndaráliti meiri hlutans er fjallað um flugvellina og hvaða fyrirkomulag geti verið til framtíðar, hvort Isavia eigi að sjá bæði um rekstur og viðhald innanlandsflugvalla eða hvernig menn ætli að hafa þetta. Isavia hefur verið gagnrýnt fyrir að einblína mjög á uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli sem vissulega er nauðsynleg. Svo eru menn að tala jafnvel um niðurgreiðslur á innanlandsflugi, að líta á innanlandsflug sem hluta af samgöngukerfinu og horfa þá til Vestfjarða, Austfjarða og jafnvel Norðurlands og þess kostnaðar sem fylgir því að koma sér til höfuðborgarinnar. Þetta er risastór málaflokkur. Við virðumst alltaf enda á að tala um flugvöllinn í Vatnsmýri. Málið er auðvitað stærra en svo þó að hann skipti vissulega máli. (Forseti hringir.) Svo spyr ég bara almennt um þessi flugmál, hvaða afstöðu hv. þingmaður hafi.