145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við þingmennirnir báðir höfum einmitt upplifað hvernig ástandið er víða á vegum landsins. Það er ágætt dæmi að vísa til þess hvernig ástandið getur verið á norðausturhluta landsins. Ég var bara að benda á að jafnvel þó að strandsiglingar væru allra góðra gjalda verðar, og ég leggst ekki gegn því að þær verði auknar, þurfa þær að vera hagkvæmar að einhverju leyti. Og þær eru til staðar að einhverju leyti, þó að ég skilji alveg skoðanir hv. þingmanns, að hann vilji auka þær. Það sem ég vil hins vegar benda á er að við eigum að standa saman um innanlandsflugið. Það eru ekki tillögur meiri hluta samgöngunefndar að Isavia sjái bara um rekstur þriggja flugvalla. Ég hef hins vegar sjálfur lagt fram breytingartillögu um að allir þessir flugvellir, Reykjavíkurflugvöllur, Egilsstaðaflugvöllur og Akureyrarflugvöllur, verði settir undir einn hatt og að þar verði skipuð nefnd eins og um Keflavíkurflugvöll. Sú nefnd, með Alþingi sem (Forseti hringir.) yfirstjórn, mundi ráða þar ríkjum. Ég held að það sé langbest. Við bendum hins vegar á að Isavia eyðir um 20 milljörðum í framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli og það á að nýta þann arð í uppbyggingu vegakerfisins hringinn í kringum landið.