145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:36]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka þingmanninum fyrir þessa miklu og kröftugu ræðu. Í framhaldi af því þar sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson spurði um varðandi flugið og íslensku flugvellina og hv. þingmaður sat í þeirri nefnd sem átti að reyna að taka fargjöldin niður í innanlandsflugi: Var eitthvað skoðað í þeirri nefnd að fara sömu leið og Nordavia, eða sem sé norsku leiðina? Þar eru flugvellir, t.d. Gardermoen, að greiða niður flugvelli annars staðar. Það hefur reynst vel. Flug er náttúrlega bara hluti af samgöngukerfinu í Noregi. Þar er erfitt að ferðast á milli, þetta eru langar vegalengdir, landið er stórt og víðfeðmt og ég held að það sé margt sem við gætum lært af þeim. Ef það er meiri samkeppni á þessum litlu völlum, meiri traffík, má ímynda sér að verðið gæti farið niður. Að sama skapi talaði hv. þingmaður líka um strandsiglingar. Nú hef ég heyrt að ástæðan fyrir stórum hluta af þungaflutningunum hér á landi sé að farið er með fisk frá Austurlandi til Keflavíkur til að selja síðan til útlanda. Væri ekki betra að samnýta þessi tækifæri og reyna að styrkja flugvellina á Austurlandi, Vestfjörðum eða hvar sem það nú er, svo mætti fljúga beint með fiskinn út þaðan í stað þess að keyra hann alla leið til Keflavíkurflugvallar? Var það skoðað í þeirri nefnd sem hv. þingmaður sat í þegar kom að farþegafluginu og fleiru í þeim dúr?