145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:38]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já. Við skoðuðum auðvitað aðeins fyrirkomulagið í Noregi og þekktum sum til þess. Við skoðuðum jafnvel ferjusiglingar frá eyjunum norðan við strönd Þýskalands og í land þar sem ríkið í sumum tilvikum tryggir íbúunum ókeypis fargjöld í ferjuna svo þeir geti verið að fullu þátttakendur í menningarlífi og öðru slíku uppi á fastalandinu. Í Noregi er það ekki beinlínis þannig að tekjurnar af Gardermoen séu bara fluttar beint innan einhvers kerfis í aðra flugvelli. Það er þannig að þeir byggja þetta upp á dótturfélögum. Þeir eru með móðurfélag og dótturfélag og það eru arðgreiðslur sem ganga á milli og verður víst að vera þannig út af evrópskum samkeppnisreglum. En til viðbótar styrkir norska ríkið stóran hluta minni flugleiðanna innan Noregs mjög myndarlega. Ég man að fyrir nokkrum árum var aðalinnanlandsflugfélag þeirra, til viðbótar við SAS og núna Norwegian, Widerøe. 70% af öllum flugleiðum sem Widerøe flaug á innan Noregs voru ríkisstyrkt. Þannig halda þeir upp flugi til minni staða úti um allan Noreg, út frá stærstu stöðunum. Það er flug út frá Bergen, út frá Tromsø og út frá Ósló o.s.frv. Þetta mikla net byggja þeir upp og reka með umtalsverðum ríkisstuðningi. Það er ekkert rifist um það í Noregi það er ég best veit. Þeir gera það annars vegar með skatti beint úr ríkissjóði og hins vegar með því að færa á milli arð í gegnum dótturfélög. Að sjálfsögðu væri gríðarleg framför í að hafa beint flug frá Akureyri eða Egilsstöðum, helst báðum stöðum, til dæmis í sambandi við frakt og fiskútflutning. Það er eiginlega dálítið merkilegt að þær gríðarlega öflugu fiskvinnslur, t.d. á Eyjafjarðarsvæðinu, sem vinna einmitt mjög mikið af ferskum fiski beint í flug, að verið er að keyra það allt hingað suður eða senda það í Norrænu, sem er reyndar talsvert notuð af fiskvinnslunni fyrir norðan og austan. Norræna er gott dæmi um hversu gríðarlega mikilvægt og gott það er að hafa slíkar samgöngur út úr fjórðungunum. Við þyrftum helst (Forseti hringir.) að hafa vikulega ferju líka frá Akureyri. En beint flug væri að sjálfsögðu ákaflega kærkomið. Það hefur verið margskoðað hvort ekki sé grundvöllur undir því.