145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:44]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum samgönguáætlun til næstu fjögurra ára. Það má ýmislegt segja um samgöngumál yfir höfuð. Ég tek undir að það er mjög dapurt að meiri hlutinn komi með á lokametrunum þessa innspýtingu í samgöngumálin en hafi ekki haft burði til þess að leggja fjármuni af neinu viti í samgöngumál þau þrjú ár sem hann hefur ráðið ríkjum. Það er athyglisvert að meira að segja á forsíðu Morgunblaðsins kemur fram að vegakerfi landsins sé að hruni komið. Er það mikill áfellisdómur að málgagn þessarar ríkisstjórnar telji það vera rétt, að slík fyrirsögn sé á forsíðu Morgunblaðsins, og segir það ansi mikið um þennan málaflokk og hve hann hefur verið vanræktur þetta kjörtímabil. Framganga meiri hlutans er þeim til skammar, en menn vilja auðvitað reyna að leiðrétta kúrsinn á síðustu metrunum.

Ég get alveg tekið undir allar þær breytingartillögur sem koma fram en hefði gjarnan viljað sjá þær enn þá ríflegri. Bætt er enn frekar í í breytingartillögum minni hluta samgöngunefndar þar sem þessi málaflokkur hefur verið sveltur svo lengi. Auðvitað er þetta áratugavanræksla. Þeirri ríkisstjórn sem var við völd eftir hrunið var vorkunn að taka við þjóðarbúinu í því ásigkomulagi sem það var, en hún lagði samt fram háar fjárhæðir í vegi, til að mynda á sunnanverðum Vestfjörðum, eitthvað á fjórða milljarð, til þess að bæta þar ástand sem var orðið okkur sem þjóð til háborinnar skammar. Þau stóru verkefni sem hafa verið í vinnslu þetta kjörtímabil eru verkefni sem hófust á síðasta kjörtímabili og því skulu menn muna eftir í þessari umræðu. Þessi blessaða ríkisstjórn getur ekki hreykt sér af miklu en nú vakna menn því að þeir þurfa að sýna fram á eitthvað í kosningunum þegar þeir koma heim í hérað, þurfa að geta flaggað því að setja eigi tugi milljóna hér og þar og geta vísað í það. Það er bara ávísun á næstu ríkisstjórn því að það á eftir að tryggja fjármagn í þær tillögur sem hér koma fram. Það verður viðfangsefni næstu ríkisstjórnar að tryggja það fjármagn. Vonandi fáum við ríkisstjórn sem hefur metnað í samgöngumálum því að það er löngu kominn tími til.

Ég er landsbyggðarmanneskja og hef verið búsett vestur á fjörðum og samgöngumálin eru upphaf og endir alls varðandi búsetu á því svæði. Ég hef því yfirsýn yfir þennan málaflokk og þann skilning að samgöngur eru sá þáttur sem gerir okkur Íslendinga að þjóð, tengir okkur og er kjarni þess að það sé ein þjóð í þessu landi sem geti notið heilbrigðisþjónustu, menntunar, menningar og annars sem lífið hefur upp á að bjóða. Við þurfum að sækja þjónustu hvar sem við erum og þá eigum við allt undir því að samgöngur séu góðar. Atvinna og öll samskipti, hvort sem er á milli fólks eða fyrirtækja, er undir því komið að samgöngurnar séu í lagi. Þær hafa langt í frá verið í lagi síðustu þrjá áratugi, frá því að við fórum að gera þær kröfur að rjúfa þyrfti einangrun byggða og við ætluðum að nýta samlegðaráhrif í svo mörgu, höfnunum okkar, fyrirtækjum, heilbrigðisstofnunum, menntastofnunum, félagslífi, menningu og mætti áfram telja.

Það kom fram hjá síðasta ræðumanni að að mati Vegagerðarinnar þyrfti svo vel ætti að vera 400 milljarða á næstu árum til að uppfæra samgöngukerfi okkar miðað við hvernig það gerist best í nágrannalöndum okkar, sem við miðum okkur oft við í öðrum málaflokkum. Það er því ærið verkefni fram undan þar sem þessi málaflokkur hefur verið vanræktur eins og raun ber vitni.

Við horfum upp á áframhaldandi brottflutning fólks frá jaðarbyggðum og veikari svæðum á höfuðborgarsvæðið. Eitt af því sem er áhrifavaldur þar eru vondar samgöngur. Að sá þáttur hafi verið vanræktur eins og raun ber vitni hefur orðið til þess að það hefur verið áframhaldandi brottflutningur fólks víða af landsbyggðinni á stórhöfuðborgarsvæðið þar sem þjónustan í mörgum málaflokkum er innan ákveðins radíusar á því svæði. Það skiptir eðlilega máli þegar ungt fólk tekur ákvörðun um hvar það ætlar að byggja upp heimili sitt og ala upp börn sín hvernig samgöngurnar eru og hvernig aðgengi er að margs konar þjónustu í nærumhverfi þess. Þetta á líka við um fyrirtækin, þau eflast og styrkjast við það að samgöngur batni.

Við getum horft t.d. til Vestfjarða undanfarin ár en sjóeldið hefur verið að vaxa og dafna á sunnanverðum Vestfjörðum. Yfir sumarið hafa aðilar verið að vinna saman á sunnanverðum Vestfjörðum og norðanverðum Vestfjörðum. Norðanverðir Vestfirðir hafa þjónustað ýmislegt og menn verið á báða bóga að vinna saman að eflingu þessara atvinnugreina. Stóran hluta ársins er ófært þarna á milli. Það tekur jafn langan tíma að komast frá Ísafirði til Patreksfjarðar og það tekur að komast frá Ísafirði til Reykjavíkur, ef ekki lengur. Það er til háborinnar skammar hvernig þessi mál eru enn þann dag í dag árið 2016.

Það er verið að sýna lit og vonandi verður sá þingmeirihluti sem kemur inn eftir komandi kosningar tilbúinn til þess að fjármagna þær breytingartillögur sem hér liggja fyrir, bæði frá meiri hlutanum og minni hlutanum í samgöngunefnd, og þyrfti auðvitað að gera enn betur og gera átak þar sem mesta þörfin er. Af því að ég nefndi Dýrafjarðargöng eða það svæði, Dýrafjarðargöng og Dynjandisheiði, þá lagði síðasta ríkisstjórn til að flýta þeim framkvæmdum með fjárfestingaráætlun. Það var rifið niður þegar þessi ríkisstjórn komst til valda en sem betur fer var ekki hætt við þessar framkvæmdir og þær eru á framkvæmdaáætlun. Þess vegna tel ég brýnt að samgönguáætlun til næstu tveggja ára eða fjögurra ára áætlun verði samþykkt, að samþykkt hennar liggi fyrir fyrir Vegagerðina að vinna eftir varðandi útboð og samninga við verktaka.

Dýrafjarðargöngin sem dæmi kosta rúma 9 milljarða. Á næstu tveimur árum er áætlað fjármagn í þau göng, í framkvæmdir, 4,5 milljarðar, svo það er ansi langt í land með að þeirri framkvæmd ljúki. Ef það á að vera uppbygging samhliða á Dynjandisheiði, sem verður að vera því að það er lítið gagn af Dýrafjarðargöngum ef sú hindrun verði áfram til staðar þar sem er verið að tala um, 50–60 ára vegarkafli og rúmir 30 kílómetrar, þá kostar uppbygging Dynjandisheiði 4,5 milljarða en næstu tvö árin er eingöngu áætlaðar í þær framkvæmdir 850 milljónir, svo eftir stendur að fjármagna vegaframkvæmdir þar fyrir rúma 3,6 milljarða. Maður spyr sig: Hvenær verður lokið við framkvæmdir á Dýrafjarðargöngum og Dynjandisheiði samhliða svo að Vestfirðir verði ein heild atvinnulega og byggðalega og geti unnið saman og fólk geti haft eðlileg samskipti þar á milli varðandi menningu og menntun og heilbrigðisþjónustu?

Nú er búið að sameina heilbrigðisstofnun undir einn hatt t.d. á Vestfjörðum og lögregluembættin og sýslumannsembættin og annað því um líkt. Þarna er ekki hægt að bíða í fjölda ára. Ég sé ekki alveg hvenær báðum þessum framkvæmdum á að ljúka ef það verða ekki settar hærri fjárhæðir í það til að ljúka þeim á skemmri tíma. Það er ekki hægt að bíða endalaust með svona verk því að byggðunum á þessum svæðum blæðir. Þær þurfa á því að halda að stjórnvöld standi með heimafólki í uppbyggingu atvinnu sem þar er á svæðinu til þess að styrkja búsetu og það mannlíf sem þar er fyrir hendi.

Ég hef líka sagt að búið er að trassa héraðs- og tengivegi t.d. í mínu kjördæmi, Norðvesturkjördæmi, alveg ótrúlega mikið undanfarin ár og áratugi. Við getum horft til bæði Húnavatnssýslu, veg fyrir Vatnsnesið, sem okkur þingmönnum hafa verið sýndar myndir frá þar sem er hola við holu við holu. Skólabílar þurfa að keyra þarna um með börn upp á hvern einasta dag og íbúar og þetta er ekki boðlegt, fyrir utan það að ferðamenn sem fara um þetta svæði hafa aldrei séð annað eins. Þetta er með ólíkindum. Þetta má færa yfir á vegi í uppsveitum Borgarfjarðar þar sem ástandið er slæmt, malarvegir, Skógarstrandarvegur og sunnanverðir Vestfirðir svo eitthvað sé nefnt, fyrir utan Strandirnar og leiðina í Árneshrepp, en framkvæmdir þar ætla engan endi að taka svo að sú byggð komist í samband við mannheima árið um kring en sé ekki lokuð af í þrjá, fjóra mánuði eins og getur verið yfir veturinn þegar allt er lokað.

Þetta er spurning um forgangsröðun og fjármögnun. Þessi ríkisstjórn hefur afsalað sér tekjum á þessu kjörtímabili, hátt í 50 milljörðum. Núna státa menn sig af því að ríkissjóður sé bólginn af fjármunum. Það eru fyrst og fremst tekjur af ferðamönnum, 70 milljarðar hafa verið nefndir undanfarin þrjú ár. Það eru skattar og stöðugleikaframlag af bönkunum varðandi losun gjaldeyrishafta. Síðan hefur ríkissjóður hagnast mikið undanfarin ár af sköttum af almenningi, þó að hann hafi afsalað sér miklum fjármunum sem eru auðlegðarskattur, veiðigjöld og ýmislegt annað varðandi raforkuskatt eða stóriðjuskatt, orkuskattinn og annað sem hefur verið afnumið.

Við fáum hingað til lands ferðamenn, áætlað er að hátt í 1,7 milljónir ferðamanna komi hingað í ár og stefnir í 2,4 milljónir á næsta ári. Þótt allar þessar tekjur séu af ferðamönnum sem hefur verið talað um af hálfu Samtaka ferðaþjónustunnar þá hafa þær ekki skilað sér með neinum hætti í samgöngur og innviðauppbyggingu þau þrjú ár sem ríkisstjórnin hefur setið með hendur í kjöltu í þessum málaflokki. Svo ætlar hún að veifa framan í kjósendur sína og kjósendur í næstu þingkosningum að nú eigi aldeilis að gera bragarbót á og hysja upp um sig buxurnar. Hún lofar öllu fögru á kostnað þeirrar ríkisstjórnar sem kemst til valda að þessum kosningum loknum. Það er ekki mjög stórmannlegt, verð ég að segja.

Ég gleðst samt yfir því, þótt seint sé, að menn vakni til lífsins í þessum málaflokki og treysti því að það verði þannig ríkisstjórn sem komist til valda að hún líti á landið sem eina heild, að hún hafi skyldur við alla landsmenn hvar sem þeir búa til að skapa þeim sómasamlegar samgöngur og halda uppi þjónustu í vegakerfi landsins, bæði á láði og á legi, því að það gerir okkur að einni þjóð og verður að vera ef við ætlum að halda uppi eðlilegum búsetuskilyrðum um land allt.

Varðandi flugvellina er það líka algjörlega til skammar hve flugvellirnir hafa verið vanræktir. Ég nefni sem dæmi flugvöllinn á Þingeyri sem hefur verið algjörlega vanræktur og ekki settir neinir fjármunir í viðhald. Það hefur verið talað um flugvöllinn á Sauðárkróki þar sem ferðaþjónustan er að eflast. Út af hverju eru þessi minni flugvellir sem eru til staðar ekki nýttir þegar við fáum þennan gífurlega fjölda ferðamanna inn til landsins, til þess að ýta undir það að ferðamenn fari úti um allt land og heimsæki þá staði sem þar eru og skoði náttúrufegurðina? Það er ekkert gert til að ýta undir það. Auðvitað ætti að reyna að opna allar gáttir, hvort sem það eru minni flugvellir sem hafa verið teknir út fyrir sviga á síðustu árum en eru í þokkalegu lagi og þarf ekki mikið til til að opna aftur, eða hvað? Þessar gáttir á að opna vítt og breitt um landið til þess að dreifa álaginu sem er á suðvesturhornið, dreifa álaginu þannig að það sé ekki þessi mikla umferð á þjóðvegum landsins, sem er orðin gífurleg og skapar óöryggi og hættu vegna þess að allt viðhald á vegum hefur verið trassað undanfarin ár, en talað er um að það þurfi líklega 11 milljarða svo vel ætti að vera í viðhald vega. Þessar breytingartillögur meiri hlutans ná ekki þeirri tölu.

Það getur vel verið að það megi segja að batnandi mönnum sé best að lifa. Það má eflaust taka þannig til orða um þær breytingartillögur sem hér koma fram.

Ég vil segja að lokum að ég mun leggja mikla áherslu á það sem þingmaður á næsta kjörtímabili að almenningssamgöngur verði efldar og að innanlandsflug verði í alvöru flokkað sem almenningssamgöngur og þar sitji landsmenn við sama borð og geti komist á milli staða til höfuðborgarinnar og í flugi innan lands á verði sem venjulegt fólk ræður við. Það er ekki eðlilegt að hægt sé að fara til meginlandsins og vera þar í fjóra daga og borga fyrir fullt fæði, flug og gistingu fyrir það sama og kostar að fara tvisvar sinnum frá Reykjavík til Ísafjarðar. Þetta er eitthvað að. Við verðum að fara að taka okkur á þarna og nota bæði hagnað Isavia á Keflavíkurflugvelli (Forseti hringir.) í þennan málaflokk og skatttekjur almennings.