145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:09]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þar erum við hv. þingmaður algjörlega sammála.

Mig langar til þess að snúa mér í seinna andsvari að svolitlu öðru sem tengist frekar Vestfjörðum, sér í lagi sunnanverðum Vestfjörðum. Sunnanverðir Vestfirðir eru í raun og veru bara umferðaróhapp í sjálfu sér, það hvernig vegirnir eru þar. Þessir slóðar, ég veit ekki hvort maður geti kallað þetta vegi sem bílar eru að keyra upp og niður til þess að komast milli staða, eru náttúrlega ekkert annað en bara dauðagildrur. Vestfirðir eru undursamlegur staður. Það er margt þarna sem skiptir menninguna miklu máli, sérstaklega ferðamannaiðnaðinn. Látrabjarg t.d. ætti að vera eitt af náttúruundrum veraldar, það er það sem Látrabjargið í raun og veru er. Við erum að tala um eitt stærsta fuglabjarg í heimi. Það eru fuglaáhugamenn út um allan heim og jafnvel fólk sem hefur aldrei séð fugla áður sem vill koma til þess að skoða Látrabjarg, þetta eru oft á tíðum þúsundir manns á dag, en vegurinn þangað stendur náttúrlega engan veginn undir þessu. Við erum bara að bjóða hættunni heim. Er það ekki í raun og veru skylda okkar, siðferðileg skylda okkar gagnvart ferðamönnum að annaðhvort loka þessum vegi og hreinlega banna fólki að fara þangað eða laga hann? Það er í nefndaráliti minni hlutans tillaga þess efnis að vegurinn að Látrabjargi verði bættur stórlega. Eins og staðan er í dag þá er þetta algjört stórslys sem á bara eftir að gerast.