145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:11]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Minni hluti umhverfis- og samgöngunefndar lagði einmitt til að gert yrði átak í nokkrum vegarköflum til viðbótar við það sem meiri hluti samgöngunefndar lagði til, þar á meðal var vegurinn út á Látrabjarg, Skógarstrandarvegur og breikkun vega í Dölum. Við lögðum einnig til að lagt yrði meira fjármagn í héraðs- og tengivegi sem á auðvitað við vítt og breitt um landið en sum landsvæði eru aftar á merinni en önnur í þeim efnum.

Ég hef alist upp við lélega vegi stóran hluta lífsins og farið marga fjallvegi og alls konar heiðar og holótta vegi og leiðinlega með grjótnybbum hér og þar, en ég verð að segja að þegar ég fór síðast út á Látrabjarg þótt ég kalli ekki allt ömmu mína í þessum vegamálum, þá blöskraði mér hvernig vegurinn var. Ég get bara ímyndað mér hve fólki er brugðið sem kemur þangað á rútu, en þangað eru reglulegar ferðir með erlent ferðafólk og ferðafólk almennt, innlenda ferðamenn, þeim hlýtur að vera mjög brugðið. Þessi vegur er stórslysagildra. Maður þakkar bara fyrir að þar hafi ekki orðið alvarleg slys. Við getum auðvitað ekki beint stórum ökutækjum eins og rútum með ferðamenn og litlum bílum sem margir ferðamenn eru á til þess að fara að skoða þetta náttúruundur, þetta stærsta fuglabjarg í Evrópu, á þennan troðning, við getum ekki tekið þá áhættu. Við verðum að bæta þar úr áður en illa fer. Ég tek alveg hjartanlega undir það með hv. þingmanni.