145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:34]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir góða og áhugaverða ræðu. Mig langar að spyrja hana fyrst og fremst um tvennt. Í fyrsta lagi: Núna erum við að nálgast kosningar og mig langar að spyrja um megináherslur Pírata í samgöngumálum almennt. Nú erum við vissulega að ræða þessa tilteknu samgönguáætlun sem er komin fram vonum seinna og í dálítið undarlegu samhengi að því leytinu til að hér er verið að vinna með breytingartillögur og ákvarðanir sem verður í raun og veru næstu ríkisstjórnar að uppfylla. Það verður einhverra annarra að framkvæma í samræmi við áætlunina þó að þetta þing ljúki við þessa vinnu. Mig langar að spyrja hv. þingmann um þetta og kannski biðja hana um að segja mér frá því hvernig hún líti á það fyrirkomulag sem við erum með núna, að vinna þetta með þessum hætti, að við séum með samgöngustefnu, stefnumarkandi samgönguáætlun, frá þinginu sem hefur greinilega mismikið vægi vegna þess hversu seint hún kemur fram og það eru jafnvel heilu árin þar sem engin samgönguáætlun er gild og verið að taka ákvarðanir um einstakar vegaframkvæmdir jafnvel bara fram hjá samgönguáætlun og með fjáraukalögum o.s.frv. Ég vil spyrja hana hvort um þetta hafi verið sérstaklega fjallað í hennar ranni. Mér finnst það áhugavert vegna þess að þetta er gríðarlega stór málaflokkur og væntanlega kemur til kasta nýs þings að ræða hann ekki síður en fyrri þinga.

Í öðru lagi vil ég spyrja hana um það hvort hún sjái betri leið en þá sem hér er yfirleitt notuð varðandi forgangsröðun verkefna. Það liggur við að stundum finnist manni eins og forgangsröðunin sé tilviljanakennd, það fari eftir þunga þrýstings (Forseti hringir.) frá viðkomandi svæðum o.s.frv. Hefur þingmaðurinn eitthvað um þetta að segja?