145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:36]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa góðu spurningu. Ég er alveg á því að þau vinnubrögð sem hafa verið í hávegum höfð við gerð samgönguáætlana, eða bara í samgöngumálum á Íslandi, hafa alltaf verið mjög tilviljanakennd. Þetta virðist vera hið týpíska kjördæmaplott eða -pot eða hvað það nú heitir, að friða sína heimabyggð. Fyrir mig sem nýjan og ungan og óreyndan þingmann var það að koma út á land og eiga allt í einu að fara að tala um jarðgöng eitthvað sem ég kannaðist ekki við úr starfi mínu sem fulltrúi Reykjavíkurborgar, en er eitthvað sem mér þykir mjög áhugavert.

Varðandi fyrri spurningu hv. þingmanns um stefnu Pírata í samgöngumálum þá erum við ekki með heildstæða stefnu í samgöngumálum heldur stefnu þegar kemur að einstaka málum eins og innviðauppbyggingu og t.d. rafbílavæðingu sem á náttúrlega að vera hluti af samgönguáætlun að mínu viti. Allt snýst þetta um það hvernig við ætlum að haga samgöngum til framtíðar. Það hefur hins vegar mikið verið talað í grasrótinni um samgöngur og ég held að flestir séu á þeirri skoðun að rétt eins og sömu gæði eiga að vera á internetinu úti um allt þá viljum við líta til vegakerfisins á sama hátt. Vegakerfið er bara net. Samgöngur eru bara net til að komast á milli staða. Við þurfum að sjá til þess að fólk eigi jöfn tækifæri til að komast á milli staða, sama hvar það er. Ég held að grundvallarhugsun okkar Pírata sem kerfisflokks sé að taka hugmyndina um jafnt aðgengi að internetinu, „net neutrality“, inn í hugmyndafræðina um samgönguáætlun. Mér finnst það eiga rosalega vel við. Ég held að við séum almennt mjög hlynnt uppbyggingu og betra vegakerfi.