145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:54]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég held að við séum öll sammála um, eins og ég sagði áðan, að það þarf að gefa verulega í. Við þurfum að bæta í, ástandið er þannig og við þekkjum það sem ökumenn um vegi landsins að það er ekki gott og fjarri því. Þetta er ekki nýtilkomið á þessu kjörtímabili, verið hefur þörf á endurbótum í langan tíma. En engu að síður stöndum við frammi fyrir því að við þurfum að bæta í. Ég þori ekki að bera ábyrgð á því hversu hátt er óhætt að fara í fjármunum, en mikið vildi ég að við gætum það. Ég tek alveg hjartanlega undir það. Ég mundi vilja setja miklu meira í þetta eins og í svo margt annað. En við þurfum að sýna ábyrgð og stíga varlega til jarðar hvað þetta varðar og gera hlutina rétt. Ég tel að hér séum við komin vel af stað. Meiri hlutinn leggur til 8 milljarða í stað 7 og að auki verði 500 millj. kr. aukalega varið í malbikun tengivega og sömu fjárhæð í breikkun brúa. Það eru 100 millj. kr. í framkvæmdir á héraðsvegum. Við þekkjum það að þeir eru víða mjög slæmir. Ég get alveg talið upp nokkra staði þar sem ég þekki persónulega. Ég þekki ekki allt landið en ég veit að ástandið er víða mjög slæmt.