145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:15]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni, sem fór aðeins yfir einstakar framkvæmdir og framkvæmdaþörf, sérstaklega á Austurlandi. Mig langar kannski að spyrja hv. þingmann meira út í hinar stóru línur.

Við ræðum hér samgönguáætlun. Loksins, vil ég segja. Eftir henni hefur verið kallað, og ekki bara í vetur, árum saman. Hér hefur ekki verið samþykkt samgönguáætlun í fjögur ár. Nú hefur þessi málaflokkur verið á hendi samstarfsflokks hv. þingmanns í ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokksins. Það virðast allir sammála um það núna að þessi málaflokkur hafi verið fjársveltur. Við höfum bent á það allt þetta kjörtímabil. Vissulega er það rétt að eftir hrun var ekki mikið um framkvæmdir í vegakerfinu, eðlilega ekki. En mitt mat er það að hægt hefði verið að hefja þessa uppbyggingu hraðar. Í raun hefði það verið nauðsynlegt, ekki síst út af auknu álagi ferðamanna á vegina.

Það er ekki laust við að maður fari að velta fyrir sér hvort þetta fjársvelti sé í og með meðvituð stefna þegar hæstv. innanríkisráðherra og hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins fara í auknum mæli að boða einkaframkvæmdir í samgöngukerfinu, tala fyrir einkaframkvæmdum á flugvöllum, einkaframkvæmdum í vegakerfinu og ræða það sem nauðsyn sökum þess að svo mikil fjárþörf sé í kerfinu. Þar værum við auðvitað farin að tala um einkarekstur á því sem við getum kallað grunnstoðir, sameign okkar. Við höfum dæmi um slíkar afmarkaðar framkvæmdir þar sem aðrar leiðir hafa verið í vali, en ég held að það sem hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar Sjálfstæðisflokksins tala um sé mun meiri áhersla á einkaframkvæmdir en við höfum áður séð í samgöngumálum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvað henni finnst um þessa sýn, hvernig Framsóknarflokkurinn sér fyrir sér (Forseti hringir.) framtíðaruppbyggingu í samgöngum og hvort Framsóknarflokkurinn vilji leggja þessa auknu áherslu á einkaframkvæmd.