145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:20]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég fagna þessu svari því að mér hefur nánast fundið eins og verið sé að lauma þessari umræðu um einkaframkvæmdir í samgöngukerfinu inn sem einhvers konar nauðsyn. Það er auðvitað vel þekkt í þessum geira að þegar málaflokkar hafa verið fjársveltir, og þetta þekkjum við líka úr heilbrigðiskerfinu, þá er farið að tala fyrir einkaframkvæmdum. En ekki endilega til hagsbóta fyrir almenning. Það er nú oftast svo að til þess að einkaframkvæmd sé arðbær þarf einhver að hafa af henni hagnað. Ég held að þarna séum við komin út á varhugaverða braut, ef ætlunin er að fara að stórauka slíkar áherslur. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið.

Það er sláandi að sjá hlutfall til samgöngumála af vergri landsframleiðslu í nefndaráliti minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar, eins og hv. þingmaður nefndi hér, og í raun alveg ótrúlegt að við séum á sama stað 2015 og 2011. Það segir alla sögu að við séum á sama stað þegar kemur að útgjöldum til samgöngumála sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, að við séum á sama stað og það mikla niðurskurðarár 2011, um leið og álagið hefur aukist jafn mikið og raun ber vitni.

Hv. þingmaður vitnaði hér til almenningssamgangna sem ég vildi einmitt spyrja út í. Ég er mikil áhugakona um það að við samþættum það sem við getum þegar kemur að loftslags- og umhverfismálum og samgöngumálum. Ég gerði það að umtalsefni, í ræðu minni við fyrri umr. þessa máls fyrr í vetur, að mér þætti ekki nægjanleg áhersla á hvernig þessi samgönguáætlun ætti að uppfylla markmið okkar í loftslagsmálum. Nú er það svo að í loftslagsmálum eru yfirmarkmiðin skýr, en við höfum ekki fengið að vita neitt sérstaklega mikið um aðgerðaáætlunina, hvernig eigi að ná þeim markmiðum. Hún hefur ekki verið birt og um hana hefur svo sem ekki verið rætt hér í þinginu. En telur hv. þingmaður að þetta vinnulag við samgönguáætlanir sé hið rétta til þess að við séum (Forseti hringir.) að samþykkja samgönguáætlun sem uppfyllir þau markmið sem við viljum ná í loftslagsmálum? Þá er ég að vitna til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda.