145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:22]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir það að það er mjög mikilvægt að huga að því, við gerð samgönguáætlunar, hvernig við samþættum hana markmiðum okkar í loftslagsmálum. Eins og við þekkjum er þetta töluvert ferli, vinnan við samgönguáætlun. Þessi samgönguáætlun hefur, ef hún verður samþykkt á þessu þingi, verið í vinnslu frá 2012. Þá var umræðan um loftslagsmálin kannski ekki komin í þann farveg sem hún er komin í núna. Það er einmitt mjög mikilvægt að samþætta stefnumótun varðandi almenningssamgöngur. Ég tel líka mikilvægt, þegar við skipuleggjum almenningssamgöngur, sérstaklega í dreifðustu byggðunum, að við leyfum okkur að samþætta fleira en flutning á fólki. Við höfum verið að breyta hér lögum og innleiða tilskipanir á síðustu árum sem hafa orðið ákveðnar hindranir í samþættingu þjónustu, sérstaklega í dreifðustu byggðunum. Allt þetta þurfum við að taka til athugunar í ljósi markmiða í loftslagsmálum. Það mætti samþætta póstþjónustu, almenningssamgöngur og jafnvel þjónustu sem er verið að veita af öðrum aðilum en þessum. Þá er ég að tala um flutning og útburð á til dæmis blöðum og tímaritum, við erum komin með ótrúlega flókið og dýrt kerfi, bæði þegar við tölum um kostnað í krónum og kostnað fyrir umhverfið.