145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:18]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og ekki síst fyrir varnarræðu þá sem hér var flutt fyrir byggð í Árneshreppi á Ströndum. Það er sannarlega verðugur málstaður að halda á lofti í þinginu.

Ég vildi kannski fyrst og fremst inna þingmanninn eftir sjónarmiðum hennar og flokks hennar varðandi tvö álitamál um fjármögnun vegaframkvæmda og annars vegar um einkaframkvæmdina. Ég tek undir að það er ástæða til að hafa áhyggjur af því að verið sé að svelta málaflokkinn til einhvers konar einkavæðingar ef svo heldur fram sem horfir um framkvæmda- og framtaksleysi í samgöngumálum sem hefur verið viðvarandi allt þetta kjörtímabil og jafnvel líka í viðhaldsmálunum eins og menn þekkja af holunum í þjóðvegakerfinu. En hvenær telur hv. þingmaður að einkaframkvæmd komi til álita? Telur hún til að mynda koma til álita að tvöfalda Hvalfjarðargöngin með aðferðum einkaframkvæmdar, eða ráðast í Sundabrautina með sambærilegum aðferðum? Eða eru önnur verkefni í samgöngukerfinu sem hún telur að væri skynsamlegt að fjármagna með þeirri leið?

Hitt snýr að framkvæmdum við ferðamannastaði eða vegaframkvæmdir sem beinlínis tengjast auknum ferðamannastraumi. Telur hún að við eigum að leita leiða til þess að taka gjöld af þeirri umferð, eins og á Látrabjargi, setja á sæmilega hátt bílastæðagjald til þess að kosta þar framkvæmdir þannig að menn komist þangað á einkabílum sínum en borgi það þá bara sjálfir en ekki skattgreiðendur?