145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:25]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Bensíngjöldin sem hafa verið ætluð í samgöngur hafa ekki skilað sér inn í þennan málaflokk. Þau eru auðvitað hluti af þessum mörkuðu tekjum. Ég vil nú segja við spurningu hv. þingmanns að ég tel umhverfisgjöld eðlilega gjaldtöku. Það er sjálfsagt að nýta þau til afmarkaðra verkefna. Þá á ég við að þeir borgi sem menga. Ef við horfum til kolefnisgjalds sem er það sem allar þjóðir eru að hækka, er það allt of lágt samkvæmt fréttum sem ég las nú síðast í dag. Þegar skoðað er hvaða gjald þjóðir heims eru að leggja á kolefni þá er það of lágt gjald miðað við skaðann sem kolefnið veldur. Það er umhugsunarefni þegar við horfum síðan til þeirra sem hafa ekki sömu færi á að nýta sér almenningssamgöngur og við getum í þéttbýlinu.

Þess vegna ræddi ég almenningssamgöngur í ræðu minni. Þar eigum við svo mikil sóknarfæri í að byggja upp almenningssamgangnakerfi fyrir þá sem eru í þéttbýlinu og vilja nýta sér annan samgöngumáta en einkabíla. Það er flóknara í hinum dreifðari byggðum. Þess vegna þurfum við líka að skoða að það verði ekki ósanngjörn skattheimta á landsbyggðina. Við þurfum að sjálfsögðu að horfa til þess með einhvers konar mótvægisaðgerðum eða aðlögunum sem gera að verkum að þetta verði ekki eingöngu slíkur skattur. Þá er ég sérstaklega að tala um einstaklingana. En við getum ekki komist hjá því að ræða hér kolefnisgjald. Ef Ísland ætlar að fara í gegnum raunveruleg orkuskipti og verða kolefnishlutlaust þá er kolefnisgjald hluti af þeirri aðgerðaáætlun.