145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:27]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Það segir auðvitað allt sem segja þarf um forgangsröðun núverandi ríkisstjórnar í þessum málaflokki að hér ræðum við um tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun sem þó er bara til tveggja ára vegna þess að þetta er áætlun tvö ár aftur í tímann. Í rauninni er þetta tillaga frá stjórnarflokkunum um það hvernig þeir hefðu viljað haga samgönguframkvæmdum síðustu tvö ár.

Mig langar til þess að spyrja hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, af því að hún hefur reynslu af því að vera í ríkisstjórn: Eru einhverjir aðrir málaflokkar þar sem menn leyfa sér að haga sér með þeim hætti að þeir geri áætlanir aftur í tímann? Hvernig væru hlutirnir ef við mundum haga okkur svona gagnvart öðrum málaflokkum, að hér væru áætlanir um uppbyggingu í menntakerfinu eða í heilbrigðismálum sem væru einhverjir óskalistar yfir það sem stjórnarflokkarnir hefðu óskað sér að þeir hefðu gert síðustu tvö ár? Það er eiginlega átakanlega áberandi að þessum stjórnarflokkum hefur ekki þótt þessi málaflokkur nægilega mikilvægur til þess að veita honum athygli fyrr en núna rétt fyrir kosningar, að við skulum hér vera að afgreiða samgönguáætlun fyrir árið 2015 og fyrir árið 2016 sem er næstum því búið.

Það er alveg fráleitt að bera þetta með þessum hætti á borð fyrir almenning. Þetta segir auðvitað allt sem segja þarf um forgangsröðun. Stjórnarflokkarnir geta ekki borið fyrir sig að þeir hafi ekki haft fjármagn í þetta. Búið er að benda þeim á það ítrekað hvernig þeir hefðu getað skapað sér fjármagn, hvaða útgjöld þeir eigi að geta forðast að ráðast í og með hvaða hætti hægt hefði verið að standa betur að uppbyggingunni. Er það ekki málið?