145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:32]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég mun bíða spennt eftir því sem hv. þingmaður ætlar að segja um hjólreiðaáætlanir en vil þó nefna að hjólreiðar hafa nú breyst verulega mikið hér í þéttbýlinu frá því að vera samgöngumáti hinna örfáu yfir í að vera samgöngumáti miklu fleiri og miklu lengri tíma ársins. Því er ekki úr vegi að fylgja því sem hv. þingmaður nefnir hér og kemur fram í nefndaráliti minni hlutans, að það er líka mjög mikilvægt að hafa langtímasýn hvað varðar hjólreiðar. Hér í þéttbýlinu er það orðinn raunhæfur kostur hjá miklu fleirum sem raunverulegur samgöngumáti til og frá vinnu. Við sjáum að atvinnulífið bregst við mjög vel við þessari þróun, því að þetta er líka lýðheilsumál. Sú gamla mýta sem var til að mynda þegar ég kom að þessum málum fyrir hartnær 12 árum, og gegndi þá formennsku í samgöngunefnd Reykjavíkur um þriggja mánaða skeið, þegar hjólreiðar voru taldar nánast ómögulegur samgöngumáti innan Reykjavíkur. Það er ekki langur tími sem er liðinn, 12 ár, en gerbreyting hefur orðið. Þar hafa margir komið að málum, t.d. samgönguyfirvöld á höfuðborgarsvæðinu. En ég nefni líka lýðheilsuþáttinn og íþróttahreyfinguna sem hefur hvatt mjög til aukinna hjólreiða með sínu frábæra átaki Hjólað í vinnuna. Það hefur opnað augu mjög margra fyrir því hversu létt það er í raun og veru að hjóla í vinnu svo fremi sem aðstæður eru fyrir hendi.

Ég tek undir með hv. þm. Róberti Marshall. Ég bíð eftir að fá að heyra aðeins meira um sýn hans á langtímaáætlanagerð um hjólreiðaáætlanir því að ég held að þar sé ekki bara um samgöngumál að ræða, heldur líka lýðheilsumál.