145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:38]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég fann mig knúna til að koma upp af því að mér fannst hér falla svo gríðarlega góð hugmynd hjá hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni. Við erum búin að leysa málefni starfsáætlunar Alþingis með því að fara bara í sama vinnulag og viðhaft er við samgönguáætlun og gerum starfsáætlunina aftur á bak. Við gætum þá alltaf tekið stöðuna þegar þingi lýkur í raun og veru og samþykkt starfsáætlunina bara aftur á bak og sleppt því að hafa hér einhverja starfsáætlun fram í tímann. Hún er álíka gild og samgönguáætlunin. Ég mælti reyndar gegn þessu vinnulagi hér áðan. Ég sé að hv. þm. Guðmundur Steingrímsson hefur vakið athygli á því að þetta vinnulag virðist tíðkast í raun á ýmsum fleiri vígstöðvum í þinginu. Hv. þm. Róbert Marshall spurði einmitt eftir því: Tíðkast þetta nokkurs staðar annars staðar en í samgöngumálum? Þeirri spurningu hefur verið svarað. Þetta tíðkast í starfsáætlun Alþingis. Það segir kannski allt um stöðuna í samgöngumálum, að hún sé orðin sambærileg og starfsáætlun Alþingis. Það boðar ekki gott.