145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[19:01]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er tvennt sem mig langar aðallega að spyrja hv. þingmann um. Í fyrsta lagi vil ég leggja út af lokahluta ræðu hans, þar sem hann talar um veika áætlun sem er samþykkt á lokametrunum þegar umboð fráfarandi þingmeirihluta er þrotið og meiri hlutinn þarf einhvern veginn að kvitta fyrir sig, að hafa þó klárað þetta.

Við sem erum í hv. samgöngunefnd, bæði ég og hv. þm. Róbert Marshall, höfum með breytingartillögum okkar og minnihlutaáliti nálgast það verkefni málefnalega, eins og öll önnur verkefni sem við höfum tekist á hendur í nefndinni, og hefur einkennt vinnu minni hlutans. Við höfum sagst ætla að styðja breytingartillögu meiri hlutans en höfum lagt fram nokkrar breytingartillögur að auki. Þær hafa snúist um nokkur atriði, en þau eru stærst að leggja meira fé í viðhald. Við viljum sjá 1,5 milljarða að auki árin 2017 og 2018 fyrir hvort ár og 400 milljónir á hvort ár í almenningssamgöngur auk annarra breytinga.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér um það mat að það styrki stöðu áætlunarinnar inn í nýtt kjörtímabil, inn í árin 2017 og 2018, ef meiri hlutinn mundi samþykkja breytingartillögu minni hlutans. Þá værum við sannarlega að sammælast um sameiginlega framtíðarsýn þrátt fyrir allt og þrátt fyrir það hve lengi við höfum þurft að bíða. Hin spurningin sem mig langar að spyrja hv. þingmann varðar líka pólitíska stöðu málsins. Ég spyr hvort hann hafi einhverjar kenningar um það hvernig standi á því að við stöndum hér svona seint á þessu kjörtímabili að ræða samgönguáætlun í síðari umr.