145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[19:03]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Það er athyglisvert að velta því fyrir sér í ljósi þeirra upplýsinga sem við fengum frá fulltrúum Vegagerðarinnar á fundum umhverfis- og samgöngunefndar, þ.e. að veita þyrfti 8 til 9 milljörðum kr. árlega í viðhald vega til þess eins að halda í horfinu, en 11 milljarða þyrfti til að bæta mætti ástand vega og öryggi samhliða nauðsynlegu viðhaldi. Í raun eru fulltrúar Vegagerðarinnar, sem þekkja best til á þessu sviði, að segja: Það þarf miklu meira en 8 til 9 milljarða á ári til að sinna viðhaldinu. Við þurfum 11 milljarða til þess að við getum lagað það sem þarf að laga, haldið við og bætt öryggi.

Hvað gerir meiri hlutinn í nefndinni í ljósi þessara upplýsinga? Jú, hann leggur til að settir verði í þetta 8 milljarðar í stað 7. Maður veltir því fyrir sér, þegar maður horfir fram á það að mikið samspil er á milli Vegagerðarinnar og innanríkisráðuneytisins þegar kemur að smíði samgönguáætlunar áður en hún kemur hér í þingið: Hvers lags samtal átti sér stað á milli undirstofnunar ráðuneytisins, sem er með sérþekkingu og fagþekkingu á þessu sviði, sem leiddi til þess að ráðuneytið ákveður að setja 7 milljarða í viðhaldið sem síðan er reynt að lagfæra af meiri hluta nefndarinnar með því að færa það upp í 8 milljarða? Við í minni hlutanum leggjum til að það fari upp í 9,5 milljarða, sem ég held að sé hárrétt tillaga, og í raun þyrfti að ganga enn lengra.