145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[19:08]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni varðandi Hvalfjörðinn. Þar er að auki mjög falleg leið til þess að fara. Þegar kemur að frammistöðu eða tillögum meiri hluta nefndarinnar, um hækkun upp í 8 milljarða, þá yrði það að sjálfsögðu til mikilla bóta ef farið yrði að þeim tillögum sem við leggjum hér til. Það er í algjörum samhljómi við þær upplýsingar sem við fengum frá Vegagerðinni á fundum umhverfis- og samgöngunefndar að halda þannig á þessum málaflokki. Það er röng pólitísk forgangsröðun sem liggur til grundvallar því að innanríkisráðuneytið lítur algjörlega fram hjá því sem Vegagerðin segir. Sú hugsun er greinilega í gangi að það þurfi ekki að gera þetta, eða það sé neikvætt að innheimta skatta til að gera þetta og það eigi að reyna að forðast allar opinberar framkvæmdir þegar því verður komið við. Ég er þannig stemmdur gagnvart framkvæmdum, ég ætla ekki að segja einkaframkvæmdum en framkvæmdum sem væru samstarf einkaaðila og hins opinbera, að ég hef verið mjög hlynntur því.

Maður heyrir oft þær raddir innan úr Sjálfstæðisflokknum, sem fer með innanríkisráðuneytið, að menn vilji gera meira slíkt. Það er bara tal. Það gerist ekki neitt. Hvorki á vegum hins opinbera né á vegum einkaframtaksins er verið að bæta samgöngur. Ég hef verið hlynntur því vegna þess að mér finnst það vera lykilatriði að bæta umferðaröryggi og reyna eftir fremsta megni að fjármagna það. Þá má (Forseti hringir.) gera það með veggjöldum eða einhverju slíku sem leiðir til þess á endanum að samgöngumannvirkin séu í eigu hins opinbera. Aðalatriðið er að hlutirnir séu gerðir.