145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

starfsáætlun þingsins.

[10:34]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Það er rétt að boðaður hefur verið fundur með þingflokksformönnum í hádeginu. En við erum án áætlunar. Það er engin áætlun gild um starfsemi Alþingis Íslendinga og það eru innan við fjórar vikur til alþingiskosninga. Við látum hér eins og allt sé eðlilegt, eins og við getum farið að hefja hefðbundinn þingfund með óundirbúnum fyrirspurnum o.s.frv. Það er ekki svo, virðulegur forseti. Það er ekki viðunandi umgengni við Alþingi Íslendinga að koma fram með dagskrá eins og ekkert sé eðlilegra. Tíminn er runninn út. Tími þessarar ríkisstjórnar er runninn út. Tími þingmeirihlutans er runninn út. Við þurfum að komast í kosningabaráttu. Það er óverjandi að hefja þingfund án þess að forseti setjist niður í það minnsta með þingflokksformönnum og forsætisnefnd.