145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

starfsáætlun þingsins.

[10:35]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er mjög undrandi á því að menn skuli yfirleitt hafa boðað til þessa fundar án þess að kalla þingflokksformenn saman. Það er góðra gjalda vert að ætla að gera það kl. 12, en að boða til fundar með dagskrá eftir að áætlun þingsins er lokið finnst mér eiginlega fyrir neðan allar hellur.

Ég vona að á þessum fundi setji menn niður verkefnin sem bíða, taki málin niður og reyni að meta hverju við getum náð að ljúka á tilsettum tíma, og ákveði hvenær við ætlum að gera það. Við gerum þetta flest, og ég hef áður nefnt það, í okkar eigin lífi, þ.e. að meta hvaða verkefni við erum með á borðinu og hvaða tíma við höfum til að reyna að ljúka þeim. Og það er það sem við þurfum að gera núna með öll þessi stórmál sem menn ætla sér að reyna að koma í gegnum þingið.

Ég vona, virðulegi forseti, að út úr fundinum kl. 12 í dag komi raunhæf verkáætlun þannig að við getum lokið þinghaldi sómasamlega og farið í kosningabaráttu sem við þurfum öll að fara að huga að.