145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

starfsáætlun þingsins.

[10:37]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það var að sjálfsögðu ljóst í síðustu viku að þessi starfsáætlun mundi ekki halda. Ég hef skilning á því að ekki var hægt að koma með starfsáætlun fyrr en að lægi fyrir hver yrði formaður Framsóknarflokksins. Ég verð samt að segja að mér finnst algerlega óviðeigandi, forseti, að setja á fund áður en þingflokksformannafundur er haldinn. Mér finnst þetta ekki í lagi. Hér eru örfáir þingmenn stjórnarmeirihlutans, örfáir. Það verður að segjast eins og er að við í stjórnarandstöðunni upplifum það að verið sé að draga okkur á þingfundi meðan þingmenn stjórnarmeirihlutans eru á fullu í kosningabaráttu úti í kjördæmum sínum. Þetta finnst mér virðingarleysi gagnvart Alþingi og virðingarleysi gagnvart möguleikum, eða alla vega enginn vilji til þess að ná einhverjum sáttum við þingið. Ég óska eftir því að þessi fundur (Forseti hringir.) verði rofinn og þingflokksformannafundurinn verði haldinn núna.