145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

starfsáætlun þingsins.

[10:40]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég biðst vægðar. Við höfum verið þátttakendur í óvissuferð Framsóknarflokksins, þingið hefur verið óstarfhæft vegna þruglsins og ruglsins hjá því fólki. Starfsáætlun er liðin því að þau voru ekki fær um að taka þátt í þingstörfum vegna innanflokksklofninga. Ég ætlast til þess að hæstv. forseti dragi okkur ekki út í þetta fúafen og haldi fund um skipulag þingsins þá örfáu daga sem við gætum hugsanlega verið hér áfram, til að hnýta þá hnúta sem nauðsynlegt er.

Hæstv. forseti. Ef forseti grípur ekki í taumana núna er þessi óvissuferð í boði hans. Ég hvet forseta til að taka ekki skömmina af ríkisstjórninni, hún á heima þar. Það þarf að leysa þessi mál áður en við höldum áfram hér.