145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

starfsáætlun þingsins.

[10:45]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er á ábyrgð forseta að setja dagskrána niður, það vita allir. Því finnst mér mjög dapurlegt að forseti ákveði að setja á fund án þess að búið sé að halda fundi þingflokksformanna og formanna til þess að ræða þinghaldið. Við erum ekki með gilda starfsáætlun.

Mér finnst líka dálítið merkilegt að forseti hagi málum svona því að þetta þýðir í raun og veru að enginn þrýstingur verður á stjórnina að finna ásættanlegar lausnir þannig að hægt sé að ljúka þessu þinghaldi. Þinghald hefur dregist svona mikið einvörðungu út af því hvernig stjórnarliðar hafa haldið á málum. Minni hlutinn hefur verið mjög viljugur til samstarfs á alla vegu. Við höfum meira að segja mannað nefndir þegar vantað hefur upp á að stjórnarliðar séu nægilega margir til að fundir séu gildir.

Það skýtur skökku við að á eina höndina sé meiri hlutinn alltaf að slá sér á brjóst fyrir það hve mikinn meiri hluta þau hafi og mikið fleiri þingmenn — hvar eru þeir þá núna?