145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

starfsáætlun þingsins.

[10:46]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi stofnun, Alþingi, starfar án starfsáætlunar. Þá var talað um að aðstæður hefðu verið fordæmalausar og það væri í lagi að gera hlutina með þeim hætti þá. (Gripið fram í.) Ég ætla ekki að bera það saman en mér finnst harla ósmekklegt að standa hér og ræða í pontu Alþingis flokksþing Framsóknarflokksins og hvort Framsóknarflokkurinn hafi fengið athygli um helgina eður ei eða hvort það séu innanhússerjur í Framsóknarflokknum, því að það er algerlega óviðkomandi því að fundur er settur í augnablikinu. Það vissu það allir jafn vel og ég sem í þessum sal sitja að við mundum ekki ljúka starfsáætluninni á fimmtudaginn. (Gripið fram í: Af hverju ekki?) Það var rætt á milli fólks alla þá viku að það yrði framhald í vikunni sem nú er hafin. Það vissu allir. Það leikrit sem nú er sett af stað hér (Gripið fram í.) er fáránlegt. Við vissum það og það er búið að boða til fundar (Gripið fram í.) þingflokksformanna kl. 12, forsætisnefnd kl. 12.30 (Forseti hringir.) og síðan hefur forseti látið þess getið að formenn stjórnarflokkanna muni hitta formenn stjórnarandstöðuflokkanna í dag. (Forseti hringir.) Við erum á þeirri siglingu, virðulegur forseti, sem allir eru að kalla eftir.