145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

starfsáætlun þingsins.

[10:50]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Suðvest. taldi það ósmekklegt að blanda flokksþingi Framsóknarflokksins inn í þetta en það er nú bara þannig að í síðustu viku kvörtuðum við mikið undan þessu skipulagsleysi og því að starfsáætlun væri að renna út og ekkert plan væri fyrir hendi. Það kom mjög skilmerkilega í ljós að formennskuslagur í Framsóknarflokknum var að tefja Alþingi Íslendinga, ekki bara tiltekna stjórnarflokka heldur Alþingi Íslendinga, þessa stofnun. Það var tilfellið, það tafði.

Nú er þingfundur aftur hafinn án þess fyrir að liggi hvert framhaldið verður. Það er í skásta falli ekki við hæfi. Það ætti auðvitað fyrst að tala saman um það hvernig við ætlum að ljúka þessu þingi. Það er algjörlega sjálfsögð krafa. Og það sem hv. þingmaður sagði áðan um að þetta væri ekki í fyrsta sinn sem við störfuðum án starfsáætlunar þá eru það því miður ekki rök fyrir því að halda þeim ósið áfram, sérstaklega þegar það er korter í kosningar og stjórnmálaflokkar hafa ekki bara rétt á (Forseti hringir.) heldur skyldu til að kynna sig og stefnu sína fyrir kjósendum og (Forseti hringir.) það eru hagsmunir kjósenda að tími gefist til þess, ekki einungis hagsmunir stjórnmálamanna.