145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

starfsáætlun þingsins.

[10:55]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er einkennilegur bragur á þessum síðustu dögum þingsins. Núna sitjum við í þessum þingsal, mér telst til að það séu 13 þingmenn stjórnarandstöðunnar og fimm úr stjórnarmeirihlutanum. Þeir eru hættir að mæta, fulltrúar stjórnarmeirihlutans. Þeir eru ekki að störfum. Á sama tíma er okkur þingmönnum ætlað að sitja hér með enga starfsáætlun og mjög óljósar línur um hvert framhaldið skuli vera. Það er auðvitað ekki í anda þeirra hefða sem hér hafa verið í gegnum tíðina, virðulegi forseti, að halda þinginu að störfum án starfsáætlunar. Það þarf að sjálfsögðu að semja líka við stjórnarandstöðuna, úr því að forseti minntist á þau mál sem meiningin væri að koma í gegn fyrir þinglok, þá þarf að ræða það við stjórnarandstöðuna. Eru þeir fundir í gangi? (Gripið fram í: Nei.) Er verið að ræða við stjórnarandstöðuna um það hvaða málum við munum einhenda okkur í að ljúka fyrir þinglok? (SII: Við erum í óvissuferð.) Já, við erum einmitt í óvissuferð, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) það er ferð án fyrirheits og það er ekki gott veganesti fyrir kosningar.