145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

starfsáætlun þingsins.

[10:56]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, kom hér upp áðan og sagði að allir hefðu vitað að starfsáætlun mundi ekki ganga eftir og allir hefðu vitað að hér yrði dagskrá eftir helgina og að starfsáætlun lokinni. Það má vel vera að allir í þingflokki Sjálfstæðisflokksins hafi vitað það og hæstv. forseti hafi rætt það þar en við í stjórnarandstöðunni vissum það ekki. Ég get staðfest það að ekkert samtal hefur átt sér stað á milli formanna flokkanna um framhald þessa þings.

Ég vil þá spyrja herra forseta: Ef svo er að boða eigi formenn til fundar til að ræða þinghaldið fram undan, það er ekki búið að boða þann fund, við hvern eigum við að tala? Hvorugur formanna stjórnarflokkanna er í salnum. Eru þeir yfir höfuð í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu? Hver veit það, herra forseti?